131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[16:44]

Ísólfur Gylfi Pálmason (F) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var um margt ágætis andsvar hjá hv. þingmanni. Hins vegar er málið þannig að þegar við höfum ákveðna peninga þá þurfum við að forgangsraða. Við getum ekki notað sömu krónuna oftar en einu sinni. Það er ljóst. Menn vilja vera ábyrgir í peningamálum, þessi ríkisstjórn hefur verið mjög ábyrg í peningamálum þjóðarinnar.

Ég er sérstakur áhugamaður um Suðurstrandarveg vegna þess að hann skiptir okkar nýja kjördæmi miklu máli. Við getum ímyndað okkur það þegar við horfum til ferðaþjónustunnar hvað þetta skiptir miklu máli, að tengja saman Þorlákshöfn annars vegar og Grindavík hins vegar. Ég treysti því að sjálfsögðu að farið verði út í framkvæmdir við Suðurstrandarveg.

Þetta var eitt af því sem við ræddum mjög mikið, þingmenn Suðurlands í gamla kjördæminu og þingmenn Reykjaness. Þá voru allir mjög áhugasamir um þessa hluti. En á þeim tíma voru gríðarleg slys á Reykjanesbrautinni. Þess vegna var farið út í að breikka hana. Á sama hátt eru núna, nánast í hverri einustu viku, slys á Hellisheiði, síðast fyrir fáeinum dögum að fimm bílar lentu í árekstri. En við getum ekki notað sömu krónuna oftar en einu sinni og þess vegna er þetta væntanlega með þessum hætti.

En ég skal berjast með oddi og egg fyrir því að Suðurstrandarvegurinn verði að veruleika. Það er hárrétt, að talað var um það þegar kjördæmabreytingin átti sér stað. Þá var þetta í raun sú gulrót sem menn töluðu um.