131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[16:55]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er eins og búast má við þegar við ræðum samgönguáætlun í þinginu að mikill fjöldi þingmanna hefur áhuga á að taka þátt í umræðunum. Alla jafna eru samgöngumál, vegáætlun sérstaklega, mikið áhugaefni þingmanna. Eins og venjulega fer fram býsna ánægjuleg umræða og orðaskipti um áherslur okkar í samgöngumálum. Samgönguáætlunin sem við höfum fyrir framan okkur inniheldur flugmálaáætlun, siglingaáætlun, vegáætlun og umferðaröryggisáætlun.

Ég vildi í upphafi byrja á að fagna því sem fram kemur í flugmálaáætlun, þ.e. samgöngumiðstöð við Reykjavíkurflugvöll. Það er löngu tímabært að menn hugi að því hvernig eigi að stýra samgöngum innan höfuðborgarsvæðisins og tengja saman flugáætlanir, áætlunarbíla og samgöngukerfi innan Reykjavíkur með strætó. Þarna gefst loksins kostur á að búa til eina samgöngumiðstöð sem er gífurlega mikilvæg fyrir landsbyggðina, fyrir höfuðborgina og ekki síst fyrir ferðaþjónustu í landinu.

Ég tel sérstaka ástæðu til að minnast á þetta af því að við höfum heyrt önnur sjónarmið í umræðunni í dag. En þetta er í raun lokaáfangi uppbyggingarinnar á Reykjavíkurflugvelli og því að hann geti farið að fúnkera sem best í samgöngukerfi landsins.

Auðvitað eru mörg góð verkefni í siglingaáætlun sem við í samgöngunefnd munum fjalla um og fara yfir. Ég ætla ekki að nefna nein sérstök verkefni en þar er auðvitað þáttur sem skiptir landsbyggðina mjög miklu máli, m.a. uppbygging hafna. Fram undan eru nokkrar breytingar í þeim efnum sem við verðum að taka á okkur og endurskipulagning í siglingaáætluninni.

Ég vildi líka geta sérstaklega, varðandi umferðaröryggisáætlun, þess mikla átaks sem verður í þeim málum, að 1,5 milljarðar kr. skuli fara í þann málaflokk á árunum 2005–2008. Það skiptir mjög miklu máli því að við viljum ráðast gegn slysum og þeim hættum á þjóðvegunum sem eru til staðar. Það er full ástæða til að leggja fjármagn til þeirra verkefna og þau eru ágætlega rakin í samgönguáætluninni eins og hún liggur fyrir. En auðvitað þarf að fara nánar í einstaka þætti, sem ég veit að verður gert þegar áætlunin kemur til nefndarinnar til umfjöllunar.

Við höfum náð miklum og ánægjulegum áföngum í samgöngumálum á undanförnum árum. Ég vil þá sérstaklega nefna að á þessu ári munu tvenn jarðgöng komast í notkun, þ.e. Fáskrúðsfjarðargöngin, göngin milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, og síðan Almannaskarðsgöng. Jafnframt hefur verið tilkynnt að Héðinsfjarðargöngin verði boðin út í haust og ég held að því verði að fagna sérstaklega. Héðinsfjarðargöngin verða ákaflega mikilvæg samgöngubót fyrir Eyjafjörð. Jákvæð áhrif jarðganga milli þéttbýlisstaða á Tröllaskaga eiga eftir að koma víða fram. Það er alveg sama hvað menn segja um það hér, háværir þingmenn í þessum þingsal, að þessi framkvæmd mun skipta verulega miklu máli. Stækkun atvinnusvæðis og menningarleg áhrif munu hafa mjög mikil áhrif á Siglufirði og Ólafsfirði en einnig um allan Eyjafjörð. Því megum við ekki gleyma. Það er kristaltært í mínum huga að það er hárrétt ákvörðun að ráðast í þessa jarðgangagerð til að styrkja Eyjafjarðarsvæðið allt.

Hæstv. forseti. Ákvörðun um tengingu Norður- og Austurlands var tekin fyrir nokkrum árum og við erum loksins að sjá fyrir endann á því verkefni. Í haust verða væntanlega boðnir út síðustu 5 km sem á eftir að byggja upp á milli Akureyrar og Egilsstaða, svokallaður Arnórsstaðamúli. Þar er eftir 5 km kafli á hringveginum. Því miður eigum við eftir að ráðast í fleiri verkefni sem eru mjög aðkallandi og vil ég nefna skriðurnar, Þvottár- og Hvalnesskriður, sem tengja Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi. Ég á von á því að þar fáum við góðan stuðning þingmanna Suðurkjördæmis og einnig við veginn í Hamarsfirði, en báðir kaflarnir eru mjög erfiðir.

Þegar tenging Norður- og Austurlands er komin er auðvitað kominn mjög mikilvægur samgönguöxull á milli Eyjafjarðarsvæðisins og Reyðarfjarðar. Eskifjörður er orðin ein mikilvægasta útflutningshöfn landsins og með Héðinsfjarðargöngum verður komin tenging til Eyjafjarðar og áfram til Austurlands og hinna mikilvægu útflutningshafna. Með Fáskrúðsfjarðargöngum er svo komin tenging áfram suður á firði.

Allar samgönguframkvæmdirnar munu hafa mjög mikil áhrif til lækkunar á flutningskostnaði. Við verðum að viðurkenna að stytting vegalengda er ein áhrifaríkasta aðgerðin til að lækka flutningskostnað til framtíðar.

Hæstv. forseti. Tími minn er því miður liðinn. Ég hefði viljað fara yfir þær áætlanir í samgönguáætlunum sem tengjast þjóðgarðavegum en þar er einmitt um mjög mikilvægar framkvæmdir að ræða vegna ferðaþjónustunnar. Átak í þeim efnum mun auðvitað skila sér í ferðaþjónustuna með mjög (Forseti hringir.) ákveðnum hætti.