131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[17:03]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður flutti yfirgripsmikla ræðu þar sem hún tæpti á mörgum mismikilvægum samgönguverkefnum eins og gefur að skilja og forgangsraðaði eftir sínu nefi. Umræðan hefur beinst í þann farveg og ekki síst meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins, og var kannski niðurstaða deilna þeirra hv. þingmanna Gunnars Birgissonar og Einars Odds Kristjánssonar í dag, þar sem hv. þm. Gunnar Birgisson ætlaði að flytja breytingartillögu um niðurskurð úti á landi til að auka í Reykjavík en þeir sameinuðust um að auka almennt fé til vegamála.

Því vildi ég spyrja hv. þingmann út í þær tölur sem ég kynnti um útgjöld ríkisins til vegamála sem ég fékk í morgun frá upplýsingadeild þingsins þar sem fram kemur að útgjöld til vegakerfisins, t.d. milli áranna 2003 og 2005, hefur minnkað sem hlutfall af landsframleiðslu um 60%–70%, úr 1,59% í 0,92%.

Ef við tökum útgjöld til samgönguráðuneytisins sem hlutfall af landsframleiðslu má geta þess að árið 1970 var um að ræða 2,74%, 1990 rúm 2%, 2003 2,3% og 2005 1,85%. Útgjöld til vegamála og samgöngumála sem hlutfall af landsframleiðslu hafa því nánast hrunið. Þetta gagnrýndi ég mjög í ræðu minni fyrr í dag þar sem um er að ræða mjög alvarlegan og harkalegan niðurskurð til vegamála upp á 5,4 milljarða kr. Verið er að skera niður þar sem síst skyldi þar sem um er að ræða mjög hagkvæmar framkvæmdir almennt sem skila sér margfalt til baka til þjóðarbúsins í ýmsu formi, fækkun slysa, öryggis á vegum, betri samgangna og aukins hagvaxtar sem því fylgir.

Því vildi ég spyrja hv. þingmann sem fór mjög mikinn í ræðu sinni og tíndi til mörg rándýr, svo vægt sé til orða tekið, samgönguverkefni eins og göng hér og samgöngumiðstöð þar, hvort (Forseti hringir.) það sé ekki áfellisdómur yfir stjórnvöldum hve mikið og grimmt er skorið niður.