131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[17:05]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mjög svo ofmælt að grimmt sé skorið niður. Dregið var úr fé til samgönguframkvæmda vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru í efnahagslífinu. Það tel ég mikið og gott merki um góða fjármálastjórn eins og við auðvitað vitum öll. Samfylkingin samþykkir að efnahagsmál í landinu eru með besta hætti nú um stundir og fjármálastjórn ríkisins einnig.

Það var ákveðið mat að draga skyldi úr opinberum framkvæmdum í tvö ár og auka aftur árið 2007 og 2008. Ég tel það mikið og gott merki um góða fjármálastjórn og góða efnahagsstjórn. Það er langt frá því að framlög til samgöngumála hafi hrunið. Þær framkvæmdir sem við höfum ráðist í á undanförnum árum segja allt annað.

Hv. þingmaður nefndi að verið væri að ráðast í rándýr samgöngumannvirki og það er alveg rétt, því að auðvitað eru þau verkefni sem menn hafa verið að ýta á undan sér á undanförnum árum verkefni sem hafa þurft að taka til sín mjög mikið fjármagn og eru átaksverkefni. Þess vegna þýðir ekki að ráðast í þau verkefni sem við höfum fyrir framan okkur nema með fulla fjármögnun og við getum nefnt ýmis verkefni því til sönnunar. (Forseti hringir.) Það er ástæðan fyrir því að (Forseti hringir.) rándýru verkefnin, eins og hann kallar þau, eru einmitt á dagskrá hjá okkur.