131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[17:14]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú einu sinni þannig að við erum búin að byggja þennan flugvöll. Flugvöllurinn er til staðar. Það sem við eigum auðvitað að leggja áherslu á núna, og ætlum að gera, er að byggja samgöngumiðstöð við flugvöllinn sem er auðvitað bráðnauðsynlegt ef þetta samgöngutæki sem flugvöllurinn er á að nýtast sem best. Þegar við erum að hugsa um samgöngumál í heild verðum við að geta tengt þessa þætti saman, landsamgöngurnar og flugsamgöngurnar. Ég held að þarna sé um mikið hagsmunamál að ræða.

Það er mjög langt síðan að ferðamálafrömuðir ýmsir í landinu og reyndar sem hafa starfað erlendis hafa bent á að það væri ekki nokkurt vit í því að ekki væru tengdar saman landsamgöngur og flugsamgöngur í Reykjavík. Hvar komum við t.d. erlendis í stórborgir þar sem ekki eru samgöngumiðstöðvar, t.d. lestarstöðvar, sem eru þær heildarsamgöngumiðstöðvar sem menn þurfa auðvitað að hafa? Við ætlum að byggja upp ferðaþjónustu og erum að gera það með miklum myndarbrag og okkur hefur tekist best af öllum þjóðum að auka ferðamannastraum til landsins. Auðvitað verður að þjóna þessum fjölda manna sem kemur að heimsækja okkur. Auðvitað verðum við sem erum að ferðast um í þessu landi að geta komið til höfuðborgarinnar og haft hér almennilegar samgöngur.

Ég segi það við spurningu hv. þingmanns: Það var tekin um það ákvörðun á Alþingi að byggja flugvöllinn upp í Vatnsmýrinni, þar er hann kominn og að tala um að hafa það (Forseti hringir.) með einhverjum öðrum hætti gerum við þegar við verðum orðin alveg ofboðslega rík.