131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[17:33]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar lögin voru sett um breytingar á sköttum til verulegrar lækkunar þá var allt þetta undir. Þá var algerlega vitað að hverju var stefnt af hálfu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Menn gengu því að þessum aðgerðum og ákvörðunum alveg með opin augu.

Ég vil minna á eitt. Síðast þegar vinstri stjórn var á Íslandi, árið 1990, og fjármálaráðuneytið og samgönguráðuneytið voru á hendi alþýðubandalagsmanna voru til vegamála á verðlagi ársins 2003 8 milljarðar. Átta milljarðar voru til vegamála á verðlagi ársins 2003. Á þessu ári gerum við ráð fyrir 12 milljörðum til vegamála og á næsta ári 11,5 milljörðum. Við gerum ráð fyrir því að á árinu 2007 verði 15,6 milljarðar. Árið 1990 voru þetta 8 milljarðar (Forseti hringir.) þegar Alþýðubandalagið forveri Samfylkingarinnar var við völd.