131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[17:34]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir hæstv. samgönguráðherra svolítið óheppinn með röksemdirnar sínar. Hér er hann búinn að framreikna það sem var á vegaáætlun í kringum 1990. En honum dettur ekki í hug að muna eftir því sem var farið yfir fyrr í umræðunni í dag. Þá kom mjög skýrt fram að framlög til vegamála hafa skroppið saman miðað við landsframleiðslu og umfang hjá ríkinu. Þannig er nú bara það. Ég held að hæstv. ráðherra ætti að skoða sig vel um. Mér finnst einhvern veginn eins og hæstv. ráðherra hafi í gegnum tíðina haft þann háttinn á að mæta í ræðustól Alþingis hokinn af mokstrinum og afrekum sínum en hafi gert minna af því að skoða hvað væri mikið á bak við það ef það er borið saman við liðinn tíma og það umfang sem ætti kannski að vera í vegamálum miðað við umfangið í heild í landsframleiðslu og umfang ríkisins almennt.

Mér finnst og ég segi það alveg eins og er að hæstv. ráðherra ætti að fara yfir þessi mál betur því kannski er hluti af vandanum sá að hann hefur verið of viljugur til þess að hlaupa fyrir þá ríkisstjórn sem hann er í. Hann hefur mætt hér tvisvar á hverju kjörtímabili í annað skiptið til þess að boða hvað eigi að fara í mikið átak í vegamálum og í hitt skiptið til að gera grein fyrir því að nú þurfi að fara í niðurskurðinn. Svo sitja menn eftir með það að það hefur í raun lítið eða ekkert gerst fram yfir það sem áætlað var og enginn skilur orðið neitt (Forseti hringir.) í því hverju var verið að lofa og hvað var efnt af því.