131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[17:48]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Örstutt af skattamálunum. Ekki á nokkrum einasta fundi sem ég var á með frambjóðendum Samfylkingarinnar lofuðu frambjóðendur Samfylkingarinnar fólkinu í borginni ekki lækkun jaðarskatta. Því lofuðu þeir á öllum þeim fundum sem ég fór á og þeir voru ekki fáir. Það er ágætt að það komi algjörlega skýrt fram að þeir ætluðu aldrei að standa við það að lækka jaðarskatta. Aldrei. Hér kom enn ein staðfestingin á því.

Mér er bara ánægja að upplýsa hv. þingmann um að það sé ekki áhugi á Sundabrautinni. Ég get alveg farið með honum í gegnum það í löngu máli, sýnt honum bókanir, tillögur og annað slíkt máli mínu til stuðnings.

En það virkaði undarlega að hér kom hv. þingmaður og talaði um hagsmuni Reykvíkinga af því að keyra víðs vegar um landið, sem er hárrétt, og af góðum samgöngum. En það eru sannarlega líka hagsmunir þeirra sem búa ekki í borginni og sækja hingað þjónustu, sem er stærstur hluti landsmanna, að góðar samgöngur séu innan borgarinnar. Ég tel að hv. þingmaður ætti nú að huga að hagsmunum umbjóðenda sinna, (Forseti hringir.) skoða þetta með mislægu gatnamótin og reyna að hafa áhrif á sitt fólk.