131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[18:22]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að byrja á að segja að ég fagna því að hv. þm. Magnús Stefánsson vilji ræða um vegamál og samgöngumál af sanngirni. Það kemur mér ekki á óvart, vegna þess að hv. þingmaður er og hefur gefið sig út fyrir að vera einkar sanngjarn maður. Hann lýsti því yfir að hann fagnaði þeim áformum sem fram koma í þeirri áætlun sem við ræðum um byggingu flugstöðvar við Reykjavíkurflugvöll. Ég er ekki sömu skoðunar, vegna þess að þrátt fyrir að það eigi að vera flugvöllur að mínu mati í Reykjavík eða við Reykjavík finnst mér óeðlilegt að flugvellinum sé fyrirkomið á líklega besta byggingarsvæði landsins, einu verðmætasta og skemmtilegasta byggingarsvæði landsins. Ég tel að það væri miklu skynsamlegra og sanngjarnara gagnvart Reykvíkingum að hann yrði færður. Ég sé fyrir mér að það séu margir kostir í stöðunni og að við getum flutt flugvöllinn úr Vatnsmýrinni og eitthvert annað án þess að sú þjónusta sem hv. þingmaður talar um af sanngirni við landsbyggðarmenn verði skert. Ég er nefnilega eins og hv. þingmaður talsmaður góðra samgangna úr þéttbýli í dreifbýli og öfugt.

Ég hlýt að spyrja í ljósi þess sem fram kom í ræðu hv. þingmanns hvort hann sjái ekki fyrir sér einhverja möguleika hvað það varðar að færa flugvöllinn úr Vatnsmýrinni og hvort hann telji ekki að þjónustan við landsbyggðina (Forseti hringir.) verði eftir sem áður hin sama og alveg jafngóð þó flugvellinum verði komið fyrir einhvers (Forseti hringir.) staðar annars staðar í borgarstæðinu eða í nálægð við það.