131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[18:25]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. En telur hann líklegt að verði flugstöðin sem áætlanir gera ráð fyrir að verði byggð við Reykjavíkurflugvöll, ég geri ráð fyrir að hún muni kosta um 2–3 milljarða, samgöngumiðstöð, ekki bara fyrir flug heldur líka fyrir aðrar samgöngur? Verði sú bygging að veruleika telur hv. þingmaður að miklar líkur séu á því að flugvöllurinn verði einhvern tímann færður? Mér finnst ólíklegt ef af byggingunni verður að hún verði rifin innan fárra ára, það væri illa farið með gott fé ef það yrði gert. Ég tel að ef menn ætla að ráðast í bygginguna séu menn með þeim hætti að festa flugvöllinn endanlega í sessi.

Ég hef borið þá sanngjörnu spurningu fram gagnvart hv. þingmanni hvort það skerði þjónustu við landsbyggðina að færa flugvöllinn úr miðbæ Reykjavíkur og rétt út fyrir borgina. Ég sé ekki að svo sé. Ég tel að sjónarmið mín í málinu séu afar sanngjörn gagnvart landsbyggðinni og sömuleiðis gagnvart Reykvíkingum. Mér sýnist einsýnt að verði af byggingunni verði enn erfiðara en áður að færa flugvöllinn.

Ég vil hins vegar taka það fram að ég er alveg jafnhlynntur góðum samgöngum og samgöngumannvirkjum og hv. þingmaður. Ég vil bara festa þær byggingar niður einhvers staðar annars staðar en við Alþingishúsið.