131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[18:45]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hér talar hv. þm. Pétur H. Blöndal í þá veru að þar sé nánast 100% sala á lóðum ef Reykjavíkurflugvöllur yrði lagður af þar sem hann er, en væri fluttur annað. Það er náttúrlega rangt. Það þarf að fara í miklar vegaframkvæmdir og samgönguumbætur ef 20–30 þús. manns flytja þarna á svæðið eins og gert (Gripið fram í.) hefur verið ráð fyrir. Jafnvel 60 þús., segir þingmaðurinn. Það kann vel að vera. En það hefur nú orðið aukning í innanlandsflugi, veruleg aukning, sem sýnir að þetta er mikil samgöngubót.

Ég vildi aðeins spyrja líka hv. þm. Pétur H. Blöndal: Gerir þingmaðurinn sér ekki grein fyrir því að um 1.200 störf er að ræða á Reykjavíkurflugvelli? Umferðin mundi þá bara beinast annað, auk þess sem farið hefur verið í rannsóknir og það margsinnis kannað að það er ekkert stæði fyrir flugvöll hér nálægt af öryggisástæðum annars staðar en á Keflavíkurflugvelli. Það er ekki um neitt annað að ræða. Og 1.200 störf, það skiptir miklu máli fyrir Reykvíkinga, auk þess að það er 13–14 milljarða (Forseti hringir.) viðskiptalegur ávinningur af því að hafa flugvöllinn hér. Það skiptir miklu máli.