131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[18:48]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvelt að svara því: Þessi störf fara ekki neitt. Ef við flytjum flugvöllinn t.d. til Bessastaða þarf nákvæmlega jafnmikinn mannskap þar. Við mundum byggja brú hérna á milli fyrir 1 milljarð eða svo, (Gripið fram í.) það er hverfandi miðað við þá óskaplegu hagsmuni sem eru í húfi varðandi það lóðaverð sem við erum að tala um, auk þess sem 60 þús. manna byggð í Vatnsmýrinni mundi aldeilis búa til störf. Hún mundi aldeilis búa til störf sem yrðu miklu fleiri en þessi 1.200 sem eru við flugvöllinn sem auk þess mundu ekkert hverfa. Þetta eru engin rök í málinu. (Gripið fram í.)