131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[18:49]

Lára Stefánsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég hef smásamúð yfir því að hv. þingmaður upplifir sig fórnarlamb Breta og ég ímynda mér að það geti verið óþægileg tilfinning.

Þegar verið er að tala um svo mikla peninga sem menn ætla að hala upp úr Vatnsmýrinni dettur mér Jóakim Aðalönd í hug í þessu samhengi en minni á að Vatnsmýrin er einfaldlega mýri, og ekkert sérstaklega spennandi byggingarland. Annars staðar í borgum fer fullt af plássi undir járnbrautarlestar sem ég er mjög spennt fyrir og Guðmundur Finnbogason stakk upp á fyrir 100 árum og tækju enn meira pláss. Vesturbærinn er einfaldlega úthverfi. Þetta er enginn miðbær í kringum flugvöllinn.

Ég er ekkert viss um að Reykvíkingar sem ekki komast út úr borginni vilji endilega sallast á að byggja sig í þessari mýri. Ég er mjög hissa á þessu.

Síðan vil ég minna á að þetta er líka varaflugvöllur til að komast á varasjúkrahúsið á Akureyri. Menn þurfa á þessum flugvelli að halda í Reykjavík og ættu ekkert að gleyma því.