131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[18:53]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hún er alltaf jafnskemmtileg, þessi umræða um flugvöllinn.

Ég velti oft og tíðum einu fyrir mér í þessari umræðu. Hv. þm. Pétur H. Blöndal kom hér með athygliverðar hugmyndir sem mér finnst alltaf mjög gaman að hlusta á, til að mynda það hvað landið undir flugvellinum í dag er sennilega verðmætt og að hægt væri að taka það undir byggð og nota peningana sem fengjust fyrir þetta land til að byggja flugvöll einhvers staðar annars staðar.

Af því að hv. þm. Pétur H. Blöndal er mikill talsmaður einkaframtaksins langaði mig til að spyrja hann þeirrar spurningar: Hvers vegna í ósköpunum setjast menn bara ekki hreinlega niður og útfæra þessar hugmyndir almennilega á pappír, stofna um þær félag, fara í þessa vinnu og selja hreinlega þjóðinni hugmyndina? Menn þurfa að koma bara með konkret tillögur, við ætlum að fara með flugvöllinn hingað og hann verður svona og við ætlum að fjármagna þetta með þessum hætti og nýja hverfið verður svona o.s.frv., bara útfæra þessa hugmynd og leggja hana á borðið.