131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[18:55]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Ég skil það samt sem áður ekki. Ef þessi hugmynd er svona góð — og ég er alls ekkert að draga úr gildi hennar á neinn hátt, mér finnst þetta mjög spennandi og gaman að velta því fyrir sér og gaman að tala um þetta — skil ég ekki alveg hvað það er sem menn eru svona hræddir við. Ég hygg að það væri hægt að vinna því pólitískt fylgi, bæði í höfuðborginni og líka hér á Alþingi, ef menn legðu bara fram góðar og raunhæfar hugmyndir og væru með það tilbúið hvernig þeir ætluðu að útfæra þetta. Þá væri búið að finna nýtt land undir nýjan flugvöll einhvers staðar á viðeigandi stað, þá væri búið að hanna þarna hverfi, menn búnir að setjast niður og hreinlega gera það upp við sig hvernig þeir ætluðu að fara í þetta.

Ég segi enn og aftur að mér hugnast þessi hugmynd á margan hátt vel, að því tilskildu að þessi leið sé fær, en ég er fullur grunsemda, einmitt vegna þess að mér finnst vanta (Forseti hringir.) einhvern veginn kjarkinn í menn að þeir fari í þetta.