131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[18:57]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það var áhugavert að hlýða á síðustu umræður sem hér fóru fram, einkanlega vegna þess að þar var velt upp nýjum sjónarmiðum, nýjum vinklum á þá umræðu sem um margt er í sjálfheldu, þ.e. umræðuna um Reykjavíkurflugvöll. Krafa landsbyggðarmanna er að það séu góðar flugsamgöngur við höfuðborgarsvæðið, sá er kjarninn í þeirri kröfu. Sá er hér stendur er um margt ánægður með flugvöllinn þar sem hann er en á móti kemur að sjónarmiðin sem uppi eru um að hann verði færður eru mjög sterk. Hvort það kunni að vera einhverjir fletir á þeirri hugmynd sem hv. þm. Pétur Blöndal og fleiri hafa velt upp, að hægt sé að tryggja þessar flugsamgöngur við höfuðborgarsvæðið á annan hátt, er eitthvað sem ég held að sé alveg ástæðulaust að slá út af borðinu.

Hv. þingmaður benti einnig á að kannski hefðu menn ekki hugsað nægilega á sínum tíma þegar þeir réðust í hinar miklu framkvæmdir við Reykjavíkurflugvöll þar sem hann er. Kannski hugsuðu menn ekki nægilega í botn hvort vera kynnu aðrir fletir á þessu máli. Hæstv. samgönguráðherra kom inn í þessa umræðu heldur ófrjór, ef ég má svo að orði kveða, sagði að menn hefðu samið og þetta hefði orðið niðurstaðan. Það var eins og að ekki hefði farið fram nein hugmyndavinna og menn ekki velt upp neinum möguleikum um hvaða valkostir kynnu að vera í stöðunni.

Það er alveg ljóst að við getum ekki staðið í þessum endalausu deilum um flugvöllinn, hvort hann eigi að vera eða ekki, að landsbyggðin og hluti höfuðborgarinnar standi með flugvelli í Vatnsmýri og hinn hlutinn sé á móti. Við þurfum að leita lausna og við eigum að leita þeirra með opnum hug.

Eins og ég segi fagna ég því að menn séu að velta upp hugmyndum þó að sá er hér standi sé óskaplega ánægður með flugvöllinn þar sem hann er, bæði vegna þess að ég bý nálægt flugvellinum þegar ég er á höfuðborgarsvæðinu og eins er stutt að fara í flug. Það breytir ekki hinu að það er mikilvægt að menn velti upp þessum hugmyndum.

Það sem ég vildi gera hér að umtalsefni í stuttri ræðu um samgönguáætlun er fyrst og fremst sú staðreynd að líklega er ekki til nein byggðaaðgerð sem er eins mikilvæg ef menn hafa í huga að tryggja byggð í því dreifbýla landi sem við búum í en að ráðast í gerð samgöngumannvirkja. Það er sennilega fátt, ef nokkuð, sem hefur jafnmikil áhrif.

Hér hafa Hvalfjarðargöngin komið til tals og ég þekki það mætavel hvaða áhrif þau hafa haft vestur um, upp á Akranes, Borgarfjörð og áfram. Það er ekki nokkur minnsti vafi á því að samgöngumannvirkin hafa meira að segja fyrir byggðirnar í landinu en flest annað hvað varðar að tryggja viðhald og vöxt byggða.

Þess vegna er það vissulega áhyggjuefni að á næstu tveimur árum, þ.e. 2005 og 2006, séu uppi hugmyndir um að skera niður framlög til vegagerðar um 5,4 milljarða frá eldri samgönguáætlun. Það er sú staðreynd sem við horfum hér framan í og það er staðreynd sem við horfum framan í um leið og byggðirnar eiga margar hverjar undir högg að sækja.

Mér finnst þetta vera mjög alvarlegur hlutur. Menn geta velt upp því sjónarmiði og sagt: Það er svo mikil þensla, við þurfum einhvers staðar að skera niður. Það vita menn að víða er sjálfsagt hægt að finna leiðir til að skera niður. Á tíu árum hafa tekjur ríkissjóðs þrefaldast. Það þarf því enginn að segja mér að ekki sé hægt að finna fleti á niðurskurði annars staðar en nákvæmlega þarna.

Þegar við skoðum framlög til vegamála í samhengi við hlutfall af ríkisútgjöldum höfum við farið úr 8% árið 1970 niður í 3% á árinu 2005, þ.e. útgjöld ríkisins til vegamála sem hlutfall af ríkisútgjöldum hafa farið úr 8% 1970 niður í 3% miðað við fyrirliggjandi fjárlög. Því er alveg ljóst að áherslur í þessum málum eru ekki hinar sömu og voru hér á árum áður. Á móti kemur hins vegar að vissulega hefur hagkerfið stækkað verulega og ríkisútgjöldin líka, þannig að það er ekki hægt að leggja þetta upp á sama hátt. En staðreyndin er þessi og ef við hefðum haldið útgjöldum til vegamála í sama hlutfalli og áður var værum við að tala um miklu, miklu hærri fjárhæðir.

Á þeim stutta ræðutíma sem við höfum hér til að ræða samgönguáætlun, hún kemur vitaskuld til seinni umræðu einnig í endanlegum búningi, vil ég leyfa mér að fagna því að við sjáum fram á auknar framkvæmdir á Hellisheiði sem koma þá væntanlega inn árið 2007. Ég vil einnig fagna því sérstaklega að nú stendur yfir vinna við undirbúning á rannsóknaáætlun hvað varðar mögulega gangagerð á milli lands og Eyja sem væntanlega verður ráðist í í sumar. Það er full ástæða til að fagna því vegna þess að mikilvægt er að fá svör við slíkum spurningum um hvað er mögulegt og hvað ekki og gera þá væntanlega raunhæfar kostnaðaráætlanir, því það hefur farið óskaplega mikill tími í mörgum málum í að deila um ákveðna hluti án þess kannski að menn leggi nægilega rækt við að fara ofan í málin eins og kostur er, en a.m.k. er þetta á döfinni og full ástæða til að fagna því sérstaklega.

Hvað varðar Suðurkjördæmið sérstaklega er það vissulega þannig hjá okkur öllum að við viljum framkvæma miklum mun meira og við skulum ekki gera lítið úr því.

Það sem stendur dálítið upp úr í umræðunni er sú staðreynd að ekki hefur verið staðið við loforð um framkvæmd eða gerð Suðurstrandarvegar sem lofað var í aðdraganda síðustu kosninga. Það er dálítið óþægilegt að hafa það á tilfinningunni að ríkisstjórnarflokkarnir ætli að vera með svona kosningavíxla, gefa þá út rétt fyrir kosningar og síðan kannski jafnvel að tefla þeim fram aftur í næstu kosningum, a.m.k. sjáum við ekki fram á að við þetta loforð verði staðið.

Svona rétt í lokin, virðulegi forseti, vildi ég einnig nefna það að ég sakna þess að ekki er gert ráð fyrir þverbraut á Bakka, þ.e. að ekki skuli gert ráð fyrir framlögum til flugbrautarinnar á Bakka, sem er ómalbikuð í augnablikinu og gerir það að verkum að flugvöllurinn er nánast ónothæfur á veturna í mikilli bleytu. Ég vonast nú til að hægt verði að skoða það á milli umræðna því það er ekki stór framkvæmd.