131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[19:05]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur aftur og aftur komið fram í umræðunni í dag að þingmenn Samfylkingarinnar hafa hvað eftir annað komið með ný hlutföll sem fara í vegagerð og samgöngumál. Ný hlutföll miðað við ríkisútgjöld eða miðað við þjóðarframleiðsluna. Ég held að dálítið hættulegt sé að tala svona.

Árið 1970 eins og viðmiðunin var hjá hv. þingmanni voru útgjöld til heilbrigðismála 3–4% af landsframleiðslu á Íslandi. Þau eru núna 9–10%. Hvað skyldi nú hafa aukist mest síðustu tíu árin í útgjöldum ríkisins? Jú, herra forseti, það eru málefni fatlaðra.

Herra forseti. Þessir sömu þingmenn Samfylkingarinnar hafa ár eftir ár komið og talað fyrir því að við ættum að efla velferðarkerfi Íslands, sem við höfum verið að gera, kannski á stórtækari og betri hátt en flestar aðrar þjóðir Evrópu. Þetta hefur verið að gerast.

Um leið og efnahagskerfið eflist og stækkar höfum við efni á því að setja meiri peninga í samgöngur eins og okkur sannarlega vantar. En hlutfallið, hvort sem við miðum við landsframleiðslu eða ríkisútgjöld, hefur farið niður, það er alveg hárrétt. Það hefur farið verulega niður vegna þess að ríkið er að taka svo virkan þátt í einmitt samneyslunni. Þetta er það sem við höfum verið að gera. Þetta er það sem allir þykjast vera að berjast fyrir. Þess vegna er það dálítið óheilbrigt og mjög vont og til að rugla menn í ríminu þegar menn koma núna í umræður um samgöngumál og segja: Nei, sjá — hlutfallslega hefur þetta lækkað.