131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[19:07]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst svona æsingur í hv. þingmanni kannski ekki alveg tilheyra efninu, en það sem ég var bara einfaldlega að velta hér upp og kannski ekki síst sökum þess að hæstv. samgönguráðherra hefur æ ofan í æ talað um það að sjaldan ef nokkurn tímann eða aldrei í sögu lýðveldisins hafi öðrum eins fjármunum verið varið til vegaframkvæmda. Það hefur enginn dregið það í efa, en þegar þessir hlutir eru settir í samhengi hvernig áherslur hafa breyst og í ljósi þess hve samgöngur eru þýðingarmiklar og ef menn ætla að tryggja vöxt og viðgang margra byggða hringinn í kringum landið, þá eru óþrjótandi verkefni.

Hér er aðeins verið að draga fram að þetta hlutfall er ekki hið sama og áður. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að ég og hv. þingmaður gætum víða farið yfir hvað ríkisútgjöld varðar og fundið möguleika til að færa til fjármuni og áherslur. Ég er aðeins að draga það fram að ekki er sami þungi og sama áhersla á samgöngumál í dag og var á þeim árum sem ég vísaði til. Við höfum farið úr 8% árið 1970, þ.e. í útgjöldum til vegamála, niður í 3,02% fyrir árið 2005 ef miðað er við fjárlög. Þetta er aðeins staðreynd sem hér er dregin fram. Ég var ekkert að draga fram aðrar staðreyndir um þessa hluti. Þetta er einfaldlega veruleiki. Við erum einmitt að draga þennan veruleika fram í ljósi þess að samgönguráðherra kemur hér sí og æ, ber sér á brjóst og telur sig hafa framkvæmt meira en nokkur annar maður á Íslandi. Þetta eru bara staðreyndir sem liggja á borðinu.