131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[19:21]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Öflugur borgarfulltrúi í Reykjavík og öflugur þingmaður Reykvíkinga fór nú hér með þann boðskap að flytja ætti flugvöllinn og flugvallarstarfsemina til Keflavíkur. Ég hvet Reykvíkinga sem eru þessarar skoðunar eindregið til þess að íhuga alla þá atvinnustarfsemi sem er í kringum Reykjavíkurflugvöll, bara það fólk sem starfar í tengslum við völlinn. Ef aðstæður í þjóðfélaginu væru ekki jafngóðar og þær eru í dag (Gripið fram í.) — það er ekkert atvinnuleysi og engin vandamál af því tagi — þá væri ég nú hrædd um að eitthvað heyrðist ef menn færu að ræða það af einhverri alvöru að leggja niður störf þúsunda manna sem vinna í kringum flugvöllinn. Því yrði ekki sérstaklega vel tekið við þær aðstæður. Ég held að því yrði ekki sérstaklega vel tekið hér í borginni hvort sem væri.

Þetta finnst mér vera satt að segja, hæstv. forseti, afskaplega óraunhæf umræða. Flugvöllurinn er í Vatnsmýrinni og þjónar vel sínu hlutverki. Hann er nálægt miðborginni og stjórnsýslunni. Það er einmitt það sem skiptir máli, að fólk hafi aðgang að stjórnsýslu og þjónustu í borginni. Það skiptir meginmáli eins og hv. þingmaður kom reyndar að. Það þurfa að vera greiðar og góðar samgöngur, þar á meðal flugsamgöngur til borgarinnar. Það er nú bara einu sinni þannig. Ég veit að þegar hv. þingmaður og öflugur borgarfulltrúi íhugar þetta betur muni hann komast að sömu niðurstöðu og þeir starfshópar sem unnu þær tillögur (Forseti hringir.) sem uppbygging Reykjavíkurflugvallar byggir á.