131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[19:23]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar svo mikið um borgarstjórn að ég var nærri búinn að ávarpa borgarfulltrúa.

Ég ætla ekkert að gera lítið úr því og það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur að umræðan í þjóðfélaginu núna einkennist mikið af því að menn hafa kannski gleymt því að það er ekkert sjálfgefið að alltaf sé góðæri í landinu og það sé ekkert sjálfgefið að atvinnustig sé hátt og kaupmáttur aukist á hverju ári. Þetta er alveg hárrétt. Það er sömuleiðis hárrétt að fyrir Reykjavíkurborg er það styrkur að hafa samgöngumiðstöð hér. Það liggur alveg fyrir.

Hins vegar er það niðurstaða mín eftir að vera búinn að skoða þetta og vega saman kosti og galla að kostirnir eru fleiri við að nýta þetta land undir annað og stækka og efla miðborgina því menn verða að líta á það að miðborg Reykjavíkur er á mjög litlu svæði og við getum ekki gert ýmislegt sem við vildum sjá í miðborginni m.a. út af því að Reykjavíkurflugvöllur er staðsettur þar sem hann er.

Þau störf sem vísað til fara ekki. Þau mundu hins vegar flytjast. Svæðið sem við ræðum, höfuðborgarsvæðið, er alltaf að stækka og tekur, eins og við þekkjum, til miklu fleiri staða en bara beinlínis Reykjavíkur og því sem við köllum sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.

Auðvitað snýst þetta um það hvernig við leysum samgöngumálin. En ég nefndi áðan t.d. íbúa Grafarvogs og við getum tekið íbúa Breiðholts, ég tala ekki um ýmsa aðra staði til samanburðar, Kópavog eða Hafnarfjörð. Ef við berum þetta saman við það hvað þessir íbúar eru lengi að fara á Reykjavíkurflugvöll þá munar það ekki miklu. Þetta hefði að vísu fyrst og fremst einhver áhrif svo sannarlega á þá sem sækja þessa þjónustu utan af landi. Ég ætla ekki að gera lítið úr því. En ég held að það væri hægt að bæta þessu fólki upp með öðrum hætti.