131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[20:11]

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vissulega er það rétt að skipaútgerðin hefur ekki talið sig geta haldið uppi strandsiglingum þar sem það borgaði sig ekki. Ég tel að það sé réttlætanlegt að virkja slíkar siglingar og sparnaðurinn við að leggja þær niður kemur hefur komið fram á annan hátt í þjóðarbúinu með auknum rekstrarkostnaði á þjóðvegunum og kostnaði vegna slysa sem flutningarnir á landi leiða af sér.

Hvað varðar álverið á Reyðarfirði, höfnina þar og siglingar til Evrópu, þá er það gott svo langt sem það nær. En því miður er búseta og uppbygging á Austurlandi ekki svo mikil að maður geti ímyndað sér að þeir flutningar frá Evrópu dreifist eingöngu á svæðið á Austurlandi. Líklegt er að skipin vilji nýta sér það, sem betur fer, að koma á þá höfn sem styst er til og síðan verði landflutningar frá Reyðarfirði og suður.

Ég styð hv. þm. Halldór Blöndal í því að gott sé að dreifa flutningum. Þá verður að líta til flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum sem báðir eru þannig uppbyggðir að þar er hægt að stunda millilandaflug, sem ég tel að við eigum að reyna að styrkja á allan hátt, m.a. til að dreifa ferðamönnum um landið og láta þá ekki alla koma inn á höfuðborgarsvæðið.

Hvað varðar Reykjavíkurflugvöll þá tel ég að þeir sem tala fyrir því að hann verði fluttur af svæðinu átti sig ekki á því að það er margt sem fylgir, m.a. bráðaþjónustan og (Forseti hringir.) starfsemi Landspítalans. Það þarf að horfa á þann þátt líka.