131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[20:18]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta er orðin drjúg umræða um samgönguáætlun sem eðlilegt er því að hér er um mikilvægt hagsmunamál allra Íslendinga að ræða, samgöngurnar í landinu, og fjölmörg sjónarmið uppi og ólík eftir landshlutum og sömuleiðis innan flokka og ástæða til að þakka fyrir umræðuna.

Ég vil í upphafi máls míns fagna því sérstaklega hversu hart ýmsir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa deilt á samgöngustefnuna í dag. Ég held að við sem störfum á höfuðborgarsvæðinu höfum mörg tekið undir með hv. þm. Gunnari Birgissyni um þann rýra hlut sem höfuðborgarsvæðið hefur í áætluninni.

Ekki síður hefur það glatt mig í dag að heyra unga þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson og hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson, taka upp eitt brýnasta hagsmunamál Reykjavíkurborgar, sem er brottflutningur á innanlandsfluginu úr Vatnsmýrinni og nauðsyn þess að fá það stóra og mikilvæga landsvæði undir nýja íbúðabyggð til að auka hér lóðaframboð fyrir unga fólkið og nýju kynslóðirnar í Reykjavík. Það er fagnaðarefni að sá tónn heyrist svo sterkt úr Sjálfstæðisflokknum og gott að heyra það líka úr hópi borgarfulltrúa flokksins, því að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson er líka borgarfulltrúi. Ég trúi því að þess sé ekki langt að bíða að við Reykvíkingar náum fram þessu mikilvæga hagsmunamáli okkar.

Hlutur höfuðborgarsvæðisins í þeirri áætlun sem hér liggur fyrir er auðvitað, eins og hv. þm. Gunnar Birgisson vék að, algjörlega óviðunandi. Þær leikreglur sem vegafénu er skipt eftir duga einfaldlega ekki. Að miða við vegalengdir en ekki fjölda notenda eða álag á umferðarkerfið skilar okkur svo skakkri skiptingu á fjármununum að við það verður ekki unað og eðlilegt að stjórnarþingmenn eins og hv. þm. Gunnar Birgisson rísi upp gegn því, því staðreyndin er sú að héðan af svæðinu greiða íbúarnir um 2/3 þeirra skatta sem verið er að skipta. En af því fé sem er á áætluninni er aðeins ætlað að 22%, eða um 1/5 renni aftur til svæðisins. Hér eru því greiddir 2/3 skattanna en aðeins um 1/5 fjármagnsins kemur til samgöngubóta á svæðinu.

Það þýðir ekki að skáka í því skjólinu að hægt gangi í skipulagsmálum í Reykjavík. Það gengur nákvæmlega jafnhratt í skipulagsmálum í Reykjavík og fjármagnið er fyrir, enda er ekki aðeins Reykjavík undir. Kópavogur, Garðabær, Mosfellsbær og höfuðborgarsvæðið allt er undir. Það er enginn skortur á þörfum og brýnum úrlausnum í samgönguverkefnum á höfuðborgarsvæðinu. Það er einfaldlega skortur á fjármagni til að vinna úr þeim.

Í öllum kjördæmum er auðvitað að finna brýn verkefni. Ég get til að mynda vel tekið undir þau sjónarmið sem fram hafa komið hjá ýmsum þingmönnum Norðvesturkjördæmis að það er auðvitað eitthvað sem við Íslendingar sem þjóð, ekki sem þingmenn einstakra kjördæma, hljótum að horfa sérstaklega á hversu við höfum látið byggðarkjarnana á Vestfjörðum búa við lakar aðstæður í samgöngumálum lengi. Það er sem betur fer orðið svo að flestir helstu byggðarkjarnar landsins búa orðið við að heita má nokkuð góðar og greiðar samgöngur til og frá höfuðborginni, en þar hafa Vestfirðirnir algjörlega verið skildir eftir. Það vegasamband sem Ísafirði og nágrannabæjum Ísafjarðar er boðið upp á árið 2005 er með þeim hætti að ég held að alveg óháð því hvaða kröfur einstök kjördæmi og einstök svæði á landinu gera í vegaféð hljóti það að vera verkefni og blettur á samgöngumálum í landinu sem ætti að gera það að verkum að menn gætu litið fram hjá hagsmunum svæða sinna og forgangsraðað því nokkuð að bæta hér úr og ættu að hafa metnað til þess, þar sem um er að ræða stórt verkefni, að gera til þess áætlun til lengri tíma og reyna að vinna bráðan bug að því að vegasambandið sem Vestfirðingum er boðið upp á til höfuðborgarinnar sé boðlegt.

Það er umhugsunarefni að við stöndum í alls kyns vegabótum um allt land þar sem samgöngur eru ágætar fyrir, við bætum í þar sem staðan er ágæt fyrir er látum undir höfuð leggjast að láta hina vondu leið til þessa mikilvæga byggðarkjarna á Vestfjörðum vera í því ástandi sem hún er.

Til þess að við hér á höfuðborgarsvæðinu megum una sæmilega við fyrirætlanir í samgöngumálum á næstu fjórum árum sýnist mér að fyrst og fremst þurfi að koma til tvennt. Þar er annars vegar um að ræða framkvæmdir við Mýrargötuna sem er mikilvægt verkefni í þróun byggðarinnar í Reykjavík og í því að byggja upp nýja byggð á gömlu hafnarsvæðunum sem eru að úreldast og stuðla þannig að því að geta flutt þá atvinnustarfsemi sem þar er á hentugri svæði. Þar er fyrirætlunin að byggja nýja íbúðabyggð á svæðinu þar sem slipparnir voru, en nú eftir að hafnirnar við Faxaflóa hafa sameinast er sömuleiðis ætlunin að flytja margvíslega iðnaðarstarfsemi af hafnarsvæðinu og norður fyrir Faxaflóa til að byggja upp öfluga atvinnustarfsemi á Grundartanga og sömuleiðis að einhverju leyti á Akranesi. Þannig fara saman hagsmunir byggðarlaganna á höfuðborgarsvæðinu, sem við höfum kallað svo, og við norðanverðan Faxaflóa. Enda má það heita svo að frá Eyrarbakka og í Borgarnes sé orðið eitt atvinnusvæði og við eigum í ríkari mæli að horfa á svæðið og hagsmuni þess sem eina órofa heild.

Til að greiða fyrir því að hægt sé að ráðast í þessa mikilvægu þróun byggðarinnar í Reykjavík og hina mikilvægu eflingu á atvinnustarfseminni á Grundartanga og á Akranesi er nauðsynlegt að fara í umtalsverðar framkvæmdir við Mýrargötuna, sem er meginflutningaleið fyrir hafnarstarfsemina, olíudreifinguna, sjávarútveginn og mikilvæg sjávarútvegsfyrirtæki í borginni eins og Granda.

Hitt verkefnið, sem er algjörlega nauðsynlegt að við sjáum verða að veruleika á tímabilinu, er Sundabrautin. Það er löngu orðið tímabært að hæstv. samgönguráðherra kveði upp úr um Sundabrautina.

Ég var í Reykjavík á kosningafundum með sjálfstæðismönnum árið 1998 þegar Sundabrautin var helsta baráttumálið fyrir kjörtímabilið 1998–2002. (Forseti hringir.) Nú er runnið upp árið 2005 og enn bólar ekkert á fjármagni í Sundabrautina. Enn hefur hæstv. samgönguráðherra engar dagsetningar, enga fjármuni og engar (Forseti hringir.) leiðir til að fjármagna hina mikilvægu framkvæmd (Forseti hringir.) fyrir Grafarvogsbúa, en ekki aðeins fyrir höfuðborgarsvæðið heldur allt Norðvesturland og Norðurlandið sömuleiðis.

(Forseti (JBjart): Forseti bendir hv. þingmanni á að þar sem fjórir þingmenn hafa þegar óskað eftir að veita andsvar við ræðu hans biður forseti hann um að virða ræðutímann. Hann kemur þá viðbót að í svörum við andsvörum.)