131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[20:34]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er að koma upp aftur og aftur í dag í þessari umræðu, þessi flugvöllur í Vatnsmýrinni.

Árið 1999 var samþykkt hér flugmálaáætlun. Hverjir skyldu hafa samþykkt hana? Jú, þingheimur allur, hver og einn einasti úr öllum flokkum, úr öllum kjördæmum. Það var enginn á móti henni. Þannig gerðist þetta nú.

Síðan var samið við rétt yfirvöld í Reykjavík, réttkjörna borgarstjórn, um það að byggja upp þennan flugvöll. Það stóðu allir að málinu. Það er svo, herra forseti, að hafi Alþingi samþykkt eitthvað stendur sú samþykkt þar til Alþingi samþykkir eitthvað annað. Það er ekki flóknara en svo.

Ef þau undur hefðu nú gerst allt í einu að hér hefðu fundist hundruð milljarða, eins og var sagt frá í ræðu áðan, herra forseti, hundruð milljarða í mýrinni, hlyti það að vera mikið fagnaðarefni. Þá hljóta menn að fá tækifæri til að endurskoða þetta allt saman. (Gripið fram í: Þá er … í Vatnsmýrinni.) Þá getur varla verið nokkurt vandamál á ferðinni. Þá leysum við þetta allt saman með þessum hundruðum milljarða. Það kostar nú ekki nema 15–20 milljarða að byggja nýjan flugvöll þannig að það er bara smápeningur, smápeningur að byggja nýja flugstöð. Þetta er ekkert vandamál.

Við landsbyggðarmenn höfum ekki staðið fyrir þessu. Við vissum ekki betur en að það væri algjör samstaða um þetta. Ef Reykvíkingar vilja eitthvað annað verðum við bara að finna samstöðu um það. Ekki förum við að þvælast neitt í því. Ef menn eiga svona mikið af peningum er þetta lítið mál. En það vorum ekki við sem stóðum fyrir þessu, herra forseti, bara alls ekki. Allir, hver einasti þingmaður, þar á meðal hv. þm. Pétur Blöndal, greiddu þessu atkvæði.