131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[20:38]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég rifjaði upp sagnfræðina í þessu, fór bara yfir hana þannig að það væri allt á hreinu.

Það er líka ástæða til að fara yfir það að innanlandsflug á Íslandi er ekki bara fyrir eitthvert landsbyggðarfólk eða fyrir einhverja Reykvíkinga. Þetta er hluti af infrastrúktúr þessa samfélags. Það hafa allir grætt á því hingað til.

Ef nýjar aðstæður skapast bregðast menn við. Það hefur alltaf verið þannig, samþykktir Alþingis gilda þangað til nýjar samþykktar eru gerðar. Ef það er vilji þingsins að gera eitthvað allt annað en var 1999 gerir þingið einhverja aðra samþykkt. Það er ástæðulaust að vera að deila um það. Við erum engir blórabögglar í því. Ég man ekki eftir því að nokkur maður hafi mótmælt þessu. Það stóðu allir saman að því. Við skulum bara endurskoða þetta allt saman, sérstaklega ef þessi rosalega peningaupphæð er nú allt í einu fundin til að gleðja oss.