131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[20:39]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki annað en fagnað því að hinn skörulegi þingmaður Önundarfjarðar, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, skuli lýsa því yfir úr þessum stól að við skulum bara endurskoða öll áform hér um að hafa innanlandsflugið í Vatnsmýrinni og að það sé allt í lagi. Ég held líka að það sé ástæða til. Það er hægur vandi að flytja það til Keflavíkur. Það þýðir eitthvað aðeins meiri umferð en ég held að það sé nú ekki svo langt til Keflavíkur að það muni skipta sköpum. Við skulum vita hvort við getum ekki fundið einhverja leið til að nota gullið í Vatnsmýrinni, hugsanlega til að bæta að einhverju leyti samgöngur á landi, m.a. við Vestfirðina sem ég gerði að umtalsefni áðan.