131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[20:40]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að hlusta á hv. þingmann tala um að það sé ánægjulegt að menn vilji flytja Reykjavíkurflugvöll í burtu þegar það liggur fyrir að — öllu heldur væri gott að fá svar við því hvort hv. þm. Helgi Hjörvar hafi ekki verið borgarfulltrúi eða varaborgarfulltrúi og samþykkt áætlun um að flugvöllurinn yrði í Vatnsmýrinni til ársins 2024.

Í annan stað er líka sérkennilegt að heyra hv. þingmann Reykjavíkur tala um að það sé ánægjulegt að flytja 1.200 störf frá Reykjavík og viðskiptaþátt upp á 12–13 milljarða í burtu, það skipti Reykvíkinga engu máli.

Hann talaði líka um að það væri einkennilegt og gengi ekki lengur að skáka í því skjólinu að hægt gengi í skipulagsmálum. Man ekki hv. þingmaður og fyrrverandi borgarfulltrúi eftir því þegar ákveðið var 1994 að taka út af skipulaginu mislæg gatnamót Miklubrautar/Kringlumýrarbrautar? Er það ekki rétt, vill hv. þingmaður svara því játandi eða neitandi?

Enn fremur vil ég benda á bréf frá borgarstjóra frá 6. apríl þar sem sagt er:

„Matið leiddi í ljós að verulegur kostnaðarmunur er á innri leið og þeirri ytri og er vandséð að aðrar niðurstöður umhverfismatsins réttlæti kostnaðaraukann í sambandi við Sundabraut.“

Það var eindreginn vilji R-listans að fara hina svokölluðu hábrú, ytri leið, og hefur verið til þessa tíma. Samkvæmt þessu bréfi er ekki enn búið að taka ákvörðun um það af hálfu borgaryfirvalda hvora leiðina eigi að fara.