131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[21:08]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sérkennilegt að verða vitni að þeirri sturlungaöld sem nú geisar í Sjálfstæðisflokknum. Þeir storma hér fram eins og sleggjur í hausinn á hæstv. samgönguráðherra hver á fætur öðrum, samflokksmenn hans af höfuðborgarsvæðinu, og ekki hægt að segja annað en að þeir hafi hleypt þeirri samgönguáætlun sem hér er til umræðu í uppnám, bæði hvað varðar framlög til vegamála á höfuðborgarsvæðinu svo og með afstöðu til flugvallarins í Vatnsmýrinni. Hæstv. samgönguráðherra hefur barist ötullega fyrir því að hann verði um kyrrt í mýrinni og nú síðast með fyrirhuguðum framkvæmdum um byggingu samgöngumiðstöðvar þar.

Fram hafa komið þrjú sjónarmið hjá hv. þingmönnum sjálfstæðismanna, að flugvöllurinn verði um kyrrt í mýrinni, að hann fari til Keflavíkur og í þriðja lagi eitthvað annað, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson gat um hér áðan.

Því vildi ég spyrja hv. þingmann hvort ekki kæmi til greina að hans mati að fara með flugvöllinn til Keflavíkur þar sem flugvöllur er fyrir og vitrænast, að því er virðist, að fara með hann — eða hvert vill hann annars fara með hann?