131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[21:12]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það var nú þetta einmitt sem ég vék að í upphafi ræðu minnar að það virðist aldrei vera hægt að ræða þessi mál á eðlilegan og sanngjarnan hátt án þess að þingmenn komi upp í pontu og gæti fyrst og fremst hagsmuna kjördæma sinna.

Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sér bara eina lausn í málinu og hún er sú að flugvöllurinn fari til Keflavíkur. Mér er það ekki hugnanlegt. Ég vil síðan segja að það eru engin gríðarleg átök og þaðan af síður sturlungaöld innan Sjálfstæðisflokksins þrátt fyrir meiningarmun um þessi mál. Við höfum nú orðið vitni að meiri átökum í öðrum stjórnmálaflokkum, þar á meðal stjórnmálaflokki hv. þingmanns þessa dagana.

Ég set bara fram þá frómu ósk að menn skoði þetta mál með hagsmuni bæði landsbyggðarinnar og okkar Reykvíkinga í huga og reyni að finna einhverja ásættanlega lausn áður en þeir fara að byggja samgöngumiðstöð (Forseti hringir.) á þessum stað sem mun geirnegla flugvöllinn þar sem hann er núna.