131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[21:15]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt, ég hef misskilið þetta eitthvað. En ef það er svo að hann vill bara hafa hana á öðrum stað þýðir það að við frestum þessum framkvæmdum og hann má þá treysta því að ég styð hann í því. Því verður þá frestað, það er ágætt til þess að vita.

Ég vil líka minna á það að þegar við ekki fyrir löngu síðan hófum að byggja alvöruvegi á Íslandi byrjuðum við í kringum þéttbýlið, við byrjuðum í kringum Reykjavík og í kringum Akureyri. Síðan er búið að byggja upp mest af vegunum en aðeins eru eftir norðaustur- og norðvesturkjálkarnir. Auðvitað eru þeir síðastir og við höfum lengst allra keyrt á moldarslóðinni og eðlilegt að það sé komið að okkur núna. Ég ætla því að ítreka að það getur ekki verið um neitt ranglæti að ræða, það er bara eðlilegt að byrja hér í þéttbýlinu og enda á útkjálkunum þar sem við búum. Þetta er bara eðlilegur gangur og því eðlilegt að við fáum meira fé núna. Það er ekkert óréttlæti í þessu, þetta er eðlilegur gangur og þetta gat ekki verið öðruvísi.