131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[21:31]

Einar Karl Haraldsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi óska þess að hv. þm. Einar Már Sigurðarson (Gripið fram í: Væri samgönguráðherra.) og Sigurður Kári Kristjánsson hefðu verið með okkur hér í Reykjavík þegar við vorum fyrir fjórum árum að reyna að koma vitinu fyrir hæstv. samgönguráðherra varðandi flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Það var hæstv. samgönguráðherra sem kom málinu í þann farveg að annaðhvort yrði byggður hér nýr flugvöllur með flugstöð og öllu, nýr alþjóðaflugvöllur, í Vatnsmýrinni eða hann færi til Keflavíkur, annað kæmi ekki til greina. Allar hugmyndir um minni flugvöll, eina flugbraut, um færslu á flugvellinum í borgarlandinu voru slegnar út af borðinu.

Hæstv. samgönguráðherra og fylgismenn hans bera sem sagt fullkomna ábyrgð á því hvernig fyrir þessu máli er komið. Nú allt í einu virðast menn vera tilbúnir að bakka eitthvað og ná samkomulagi um Vatnsmýrina … (Forseti hringir.)

(Forseti (HBl): Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann er að veita andsvar við ræðu hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar, eða beinir hv. þingmaður ræðu sinni til hæstv. samgönguráðherra?)

Nei, ég er að spyrja … (Gripið fram í.)

(Forseti (HBl): Ég vil biðja hv. þm. Helga Hjörvar að grípa ekki fram í.)

Hæstv. forseti. Það sem ég ætlaði að spyrja hv. þm. Einar Má Sigurðarson um er hvort hann telji einhvern grundvöll vera til að taka þessa umræðu upp á nýtt. Ég hef ekki mikla trú á því að það dugi við þessar aðstæður að taka þessa umræðu upp á nýtt en ég er í sjálfu sér tilbúinn að gera það.