131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[21:33]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það mun ekki standa á mér að taka þessa umræðu upp á nýtt, enda tilheyri ég stjórnmálaflokki sem hefur gert töluvert úr því að stunda umræðustjórnmál. Ég held að það hljóti að vera eðlilegt að við gefum okkur tíma til þess að fara yfir þessa umræðu.

Hv. þm. Einar Karl Haraldsson kemur hér inn á þátt sem ég verð að viðurkenna að ég fylgdist ekki mjög nákvæmlega með, þ.e. allri þeirri umræðu sem hér átti sér stað varðandi framtíð flugvallarins fyrir nokkrum árum. Ég fagna því hins vegar ef við fáum niðurstöðu í það mál sem er í anda þess sem helstu svokallaðir andstæðingar flugvallarins bentu á. Það er fagnaðarefni ef deiluaðilar eru að nálgast og það er oft þannig að þegar mál eru rædd og gefinn ákveðinn tími finna menn sameiginlega niðurstöðu.

Það hefur vakið sérstaka athygli mína að ýmsir hafa haldið því fram að þetta svæði í Vatnsmýrinni væri svo gífurlega verðmætt að nýta mætti þá fjármuni sem fengist fyrir það til að byggja þess vegna nýjan flugvöll út í Skerjafjörðinn. Ef það er hægt finnst mér það líka flötur sem menn hljóta að skoða til framtíðar. Auðvitað gerist það ekki á morgun eða á næstu árum en sumir hafa haldið því fram að þetta svæði væri svo gífurlega verðmætt að þar væru þar af leiðandi ýmsir möguleikar í stöðunni. Þetta er flókin og mikil umræða sem er mikilvægt, eins og ég sagði í ræðu minni, að menn gefi sér tíma til að ræða.

Það vekur athygli mína líka að ýmis svæði á höfuðborgarsvæðinu eru án bygginga sem ég hefði haldið að væri a.m.k. ekki síður hæft til bygginga en Vatnsmýrin. Ég vek athygli t.d. á Viðey sem ég átta mig ekkert á af hverju er ekki farið að skipuleggja byggð í. Ég þykist hafa séð það í ýmsum borgum að það er mjög vinsælt að byggja íbúðarhús á eyjum nálægt miðbæ þannig að ég er alveg klár á því að Viðey yrði afskaplega vinsælt byggingarland. Ég vek athygli á því (Forseti hringir.) við þetta tækifæri.