131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:36]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur komið glöggt fram bæði í ræðu hv. þm. Gunnars Birgissonar í dag og endranær að hann vill í meira mæli en gert hefur verið miða vegaframlög við höfðatölu og horfir mjög til höfuðborgarsvæðisins. Væri fróðlegt að fá hjá honum upplýsingar um hvernig hann lítur á þann bæ sem kemur næst höfuðborgarsvæðinu að stærð sem er Akureyri þar sem búa ríflega 5% af þjóðinni.

Samkvæmt þeirri vegáætlun sem hér liggur fyrir fær Akureyrarbær 30 millj. kr. en Kópavogur í Reykjanesbraut – Elliðavatn 288 millj. kr. og Fífuhvammsveg – Kaplakriki, breikkun 377 millj. kr. Ég sé því ekki betur en að hv. þingmaður, forseti bæjarstjórnar Kópavogs, sé vel staddur, a.m.k. miðað við bæjarstjórann á Akureyri.