131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:38]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef áður heyrt hv. þingmann tala um Hlíðarfjallsveg og hef löngum undrað mig á því að svo mikill maður skuli lofthræddur. Á hinn bóginn er það þannig að það eru líka ýmsir vegir nálægt Kópavogi. Nú má kannski skilja orð hv. þingmanns svo að hann líti svo á að ekkert af því sem hér er lagt til Reykjanesbrautar – Elliðavatnsvegar og Fífuhvammsvegar – Kaplakrika, breikkunar eigi að fara til Kópavogs og vilji sérstaklega með því mæla. Það má vel vera að hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar. En ef hv. þingmaður vill vera í þessum samanburði sem honum þykir vænt um af því að hann er mikill stærðfræðingur finnst mér rétt að hann beri sitt sveitarfélag saman við það sveitarfélag úti á landi sem líkast er og það er Akureyri. Þá kemur í ljós að Akureyri er mjög vanhaldin miðað við það sem hefur verið lagt til hans sveitarfélags.