131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:41]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Gunnar Birgisson hefur margt við þessa þingsályktunartillögu að athuga og ekki nein smáatriði heldur hreinlega grundvallaratriði, er mjög ósáttur við hana. Hér hafa komið hörð gagnrýnisorð frá öðrum stjórnarþingmönnum í dag, bæði úr Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að þetta undrar mig mjög vegna þess að ég las í dag viðtal við formann þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sem reyndar er staddur erlendis en fjölmiðlar virðast hafa náð í hann, og þar segir hann m.a. að þingflokkarnir báðir, stjórnarflokkarnir, hafi samþykkt þessa þingsályktunartillögu fyrir sitt leyti, það sé búið að kynna hana og fá samþykki fyrir henni í þingflokkunum. Þá hlýt ég að spyrja, vegna þess að hér eru menn hreinlega ósammála um grundvallaratriði, boða breytingartillögur og hafa uppi stór orð: Hefur þessi þingsályktunartillaga hreinlega ekki verið kynnt í þessum þingflokkum? Hafa menn einfaldlega ekki séð hana, eða hvað er hér á ferðinni?