131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:42]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er búið að kynna þessa samgönguáætlun í þingflokkunum og hún var rædd þar ítarlega. Ég greiddi fyrir mína parta í mínum þingflokki atkvæði á móti þessari samgönguáætlun þannig að það var alveg ljóst hver mín afstaða var. Ég hef verið með hana alveg á hreinu, bæði inni í þingflokknum og síðan hér.

Ég er að segja og vara við því sem mun núna í framhaldi af þessu gerast, held ég, í samfélaginu ef þessi misskipting á að eiga sér stað áfram að ekki verður friður um eitt eða neitt í samgöngumálum í framtíðinni. Það er útilokað að landsbyggðin eigi að valta yfir höfuðborgarsvæðið í fjárveitingum. Það er bara ekki líðandi, hæstv. forseti.