131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:44]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvernig atkvæðagreiðslan fór í öðrum flokkum. Auðvitað er það trúnaðarmál og ég get bara tjáð mína afstöðu í málinu.

Eins og ég segi, ég vara enn og aftur við þeirri þróun sem er að verða í þessum málum. Auðvitað vilja menn fylgja sínu fólki og allt það. En ég er kannski líka að fylgja kjósendum mínum og mínu fólki á höfuðborgarsvæðinu. Ég segi: Hvar er uppspretta teknanna? Hún er mikið til hér. Fólkið segir: Hvers vegna þarf ég að bíða hér á ljósum í hálftíma, hvers vegna er maður hálftíma stundum og þaðan af lengur úr Kópavogi? Þegar maður kemur inn í Reykjavík er allt fast, það er allt í ljósum og maður kemst hvergi. Það vantar mislæg gatnamót og allt hvaðeina.

Ég er manna fyrstur til að viðurkenna að samgöngur úti á landi eru náttúrlega grundvallaratriði. En það verður að skipta fjármununum réttlátlega milli þegna þessa lands.