131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:51]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu þá hefur það veikt okkur að borgin er ekki nógu klár með sín mál. Ég hélt t.d. að það væri klárt að taka Hallsveg. En svo virðist ekki vera. Það er einnig mjög slæmt að ekki er búið að ákveða legu Sundabrautarinnar fyrir löngu. Lengi er búið að fara með þetta svona fram og til baka og það gerist alltaf eins og hefur gerst hér áður að þegar bæjarfélögin á höfuðborgarsvæðinu komu sér ekki saman um hvert fjármagnið ætti að fara sem átti að koma á höfuðborgarsvæðið og allir fóru að rífast og reyna að ota sínum tota þá notuðu menn tækifærið og settu fjármagnið út á land og við fengum ekki neitt. Síðan náðum við samkomulagi um að forgangsraða þeim fjármunum sem við fengjum til ráðstöfunar. Eftir það hefur þetta gengið vel. Þess vegna er afskaplega slæmt að við, hvort sem það er Reykjavíkurborg, Kópavogsbær eða einhver annar, séum ekki klár með skipulagsmálin. Það veikir okkar stöðu gífurlega í samningum og togi um þá fjármuni sem fara til samgöngumála í landinu.