131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:05]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er mjög undrandi á þessum tóni frá þingmönnum Reykvíkinga. Ég þykist sæmilega kunnugur í Reykjavík. Ég veit ekki betur en hinn venjulegi Reykvíkingur telji eðlilegt t.d. að áhersla sé lögð á að ljúka hringveginum. Það er ekki gert ráð fyrir því samkvæmt vegáætluninni að það takist á næstu fjórum árum. Vera má að hv. þingmanni þyki það ofraun að ætlast til þess að ljúka megi hringveginum á næstu átta árum eða eitthvað svoleiðis. Það getur vel verið að hv. þingmanni þyki eðlilegt að þeir sem búa á stað eins og Ísafirði komist ekki á hringveginn eftir bundnu slitlagi, að það séu eðlilegar áherslur í vegamálum að þvílík byggðarlög séu ekki í sómasamlegu vegasambandi við hringveginn. Það verður auðvitað að horfa til þess. Um leið og búið verður að leggja bundið slitlag eftir mörgum leiðum að Gullfossi og Geysi er ófært niður til Dettifoss. Vera má að hv. þingmönnum þyki eðlilega búið að ferðaþjónustu á Norðurlandi meðan svo stendur. En þingmenn höfuðborgarsvæðisins (Forseti hringir.) eiga að horfa til landsins alls eins og við horfum til Reykjavíkur þegar við hugsum okkur um í landsmálum og tökum stefnu.