131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:16]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Til að ráðast í framkvæmd, hvort sem það eru mislæg gatnamót á mörkum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar eða Sundabrautina, þurfa menn að ná samkomulagi um útfærslu. Það kemur mér alltaf svolítið spánskt fyrir sjónir, eða eyru, þegar ég heyri að verið sé að kenna öðrum aðilanum um. Það þarf venjulega tvo í allar deilur og ég veit ekki betur en að ekki þurfi að bíða til ársins 2008 til að veita fjármagn í framkvæmdir við Sundabrautina, enda sagði hæstv. samgönguráðherra í framsöguræðu sinni að þetta væri svo stórt og fjárfrekt verk að það yrði að fjármagna öðruvísi. Það var ekki að heyra að það væri einungis það að Reykjavíkurborg væri ekki tilbúin með sinn hlut, enda held ég að það séu bara einhverjir mánuðir þangað til það liggur fyrir.

Svo get ég heldur ekki séð hverju það þjónar að fara aftur til ársins 2000 og vitna í orð þáverandi borgarstjóra. Það er alveg ljóst að þetta fór út úr forgangsröð, út úr skipulaginu en ég veit ekki betur en að þessi mislægu gatnamót séu komin aftur. Ég veit a.m.k. að þetta er eitt af forgangsmálum framsóknarmanna í Reykjavík, þ.e. að ráðist verði í þessa framkvæmd og í Sundabrautina sem verður hægt að gera löngu fyrr en árið 2008.