131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:19]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Ég held, herra forseti, að ég láti við það sitja að mótmæla því að borgaryfirvöld í Reykjavík hafi staðið gegn því að ráðist væri í þessar tvær stóru og þýðingarmiklu framkvæmdir. En hitt veit ég þó að ég er tilbúin að leggjast á eitt með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni til að standa að þessum stóru framkvæmdum og styðja það að í þær verði ráðist sem allra fyrst. Ég held að skipulagsvinnu og öllum undirbúningi af hálfu Reykjavíkurborgar og borgaryfirvalda í Reykjavík ljúki það fljótt að við þurfum ekki að bíða eftir annarri áætlun, eftir áætlun sem tekur gildi eftir 2008, til að ráðast í þessar stóru framkvæmdir.

Ég held að almennt séum við nokkuð sammála, ég og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, um forgangsmálin í samgöngum í Reykjavík og í vegagerðinni. Það eina er að ég styð það að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram þar sem hann er, en að hann verði skipulagður (Forseti hringir.) þannig að hann skapi byggingarlóðir en ég vil ekki að hann fari „eitthvað annað“.