131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:35]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Út af því síðasta sem hv. þingmaður sagði, þegar hann talaði um náttúrufegurðina, þá var ég að taka líkingu til að hv. þingmaður skildi það betur það þegar hann gaf í skyn fyrr í kvöld að ekki mætti leggja veg um Héðinsfjörð því að það mundi spilla þeim eyðifirði. Nú heyri ég að hann ætli að sýna mér byggðina inn við Elliðavatn, sem hann hefur að vísu gert einu sinni gert áður, sem ég þigg og það eru falleg hús og falleg byggð. Eins mun ég sýna honum hin fallegu göng eftir að þau eru komin í Héðinsfjörð og ég veit að við verðum þá báðir jafnfegnir.

Hinu tók ég eftir að hv. þingmaður hækkaði kostnaðinn við að breikka Ólafsfjarðargöng um hálfan milljarð frá því áðan. Hvað er hálfur milljarður milli vina? spyr ég. En nú er það ekki aðalatriðið heldur hitt, að hv. þingmaður gerir ráð fyrir að göngin verði notuð. Hann viðurkennir þörfina á göngum. Hv. þingmaður talar ekki aðeins um að nauðsynlegt verði að breikka göngin milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur, sem ég raunar sjálfur sagði um daginn að yrði nauðsynlegt og er mjög ánægður yfir því að hv. þingmaður sé sammála mér um það. Hann sagði líka að þetta mundi kalla á breikkun Siglufjarðarganga, þ.e. Strákaganga. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því eða neinar vonir um að umferðin og gegnumstreymið yrði svo mikið að nauðsynlegt yrði að breikka bæði göngin en ég heyri að hv. þingmaður telur svo vera.

Ég vil að síðustu segja að þegar ráðist var í Ólafsfjarðargöng var gert ráð fyrir því að göngin yrðu breikkuð síðar. Það var inni í hönnun þeirra ganga að það væri hægt smátt og smátt. Það er auðvitað síðari tíma ákvörðun hvort svo verði gert og hvort þörf verði á því en aðalatriðið er að ég heyri að hv. þingmaður er sammála mér um að mikil þörf er fyrir göng frá Dalvík alla leið til Siglufjarðar.