131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:37]

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Margt markvert hefur komið fram í þessari umræðu. Eitt af því sem ég vil fá að nefna af því sem fram hefur komið eru ræður hv. þm. Gunnars Birgissonar í dag og í kvöld. Hann kveðst munu beita sér fyrir því með breytingartillögum að fjármagn til vegagerðar verði fært frá Norðvesturkjördæmi til höfuðborgarsvæðisins vegna þess að íbúar á höfuðborgarsvæðinu og hv. þingmenn þess geti ekki sætt sig við þá skiptingu sem fyrir liggur í vegáætlun.

Ég vil leyfa mér að benda hv. þingmanni á að mjög hátt hlutfall þeirra vega sem eftir á að byggja upp í landinu eru í Norðvesturkjördæmi. Ég spyr: Hvernig ætlar hv. þm. Gunnar Birgisson að réttlæta slíkt fyrir fólki, t.d. á Vestfjörðum, þegar það sér ekki fram á að komast upp úr, ég leyfi mér að segja það, drullunni fyrr en eftir mörg ár og á slitlag að þjóðvegi 1? Ég vil einnig benda á að nú þegar er ástand vegakerfisins á þessu svæði mjög erfitt vegna aukinna þungaflutninga sem hafa vaxið mikið að undanförnu. Einnig má nefna að það kemur fyrir að maður rekst á fólk á höfuðborgarsvæðinu sem vælir og kvartar undan slæmu ástandi vega í Norðvesturkjördæmi, sérstaklega á Vestfjörðum, á ferðum þess um landið.

Ég verð að segja að mér finnast þessi sjónarmið ótrúleg hjá manni sem ég veit að þekkir mun betur til en mætti ætla af þessu. Hv. þingmaður lét sig hafa það í umræðum í dag að halda því fram að nánast öll vegagerð væri búin á Vesturlandi og nánast aðeins eftir að malbika upp á Langjökul. Ég vildi að rétt væri, að vegagerð á Vesturlandi væri öll búin. En ég verð, hæstv. forseti, að mótmæla þessum málflutningi hjá mínum ágæta vini hv. þm. Gunnari Birgissyni. Mér finnst svona málflutningur hálfgerð móðgun við fólk sem býr á þessum svæðum. Það er mjög mikið eftir af vegaframkvæmdum í Norðvesturkjördæmi og kallað eftir úrbótum í þeim efnum.

Ég vil að lokum nefna nokkuð sem upp kom fyrr í kvöld varðandi hugmyndir um Vaðlaheiðargöng. Það kom fram í máli hæstv. samgönguráðherra í andsvari að hann teldi þær hugmyndir athyglisverðar. Ég get svo sem alveg tekið undir það. Hann gaf undir fótinn með að það mál verði tekið inn í endurskoðun vegáætlunar eftir tvö ár og spáði góðum stuðningi við það á Alþingi. Í ljósi þessa vakna ýmsar spurningar sem ég vil velta upp, fyrst hæstv. ráðherra gaf upp boltann í þeirri umræðu. Þá vaknar til að mynda spurningin um það hvort heimamenn eigi að ráða forgangsröð framkvæmda þegar um takmarkað fjármagn er að ræða. Síðan væri fróðlegt að heyra hvort hugmyndir séu um að fjármagna þessa framkvæmd með veggjöldum, hvort það muni duga til eða hvort hugmyndir séu uppi um að ríkissjóður leggi til fjármagn til framkvæmdarinnar.

Ef ég veit rétt stendur fyrir dyrum endurskoðun jarðgangaáætlunar á næsta ári. Ýmis jarðgöng bíða eftir að komast á réttan stað í þeirri áætlun, þar á meðal eru jarðgöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar sem ég tel að ættu að vera næst í röðinni. Mér þætti fróðlegt að heyra hvort ætlunin sé að Vaðlaheiðargöngin komi inn í jarðgangaáætlun með einhverjum hætti og hvernig það er hugsað. Þessu beini ég vinsamlega til hæstv. ráðherra og vildi gjarnan fá að heyra hugmyndir hans um þetta mál í lokaræðu hans hafi hann til þess tíma.

Í umræðunni í dag hefur komið fram það álit sumra stjórnarandstöðuþingmanna að minna hlutfall fjármagns fari til vegamála nú, þ.e. hlutfall af vergri landsframleiðslu, en áður var. Menn hafa tekið dæmi af árinu 1970. Því hefur verið haldið fram að minna sé lagt til vegamála og minni áhersla lögð á þennan málaflokk nú en áður. Að mínu mati eru það rangfærslur vegna þess að á síðustu árum og á næstu árum er gert ráð fyrir mun meira fjármagni, miklu meiri framkvæmdum en áður hefur verið. Í því ljósi verðum við að skoða að samneyslan hefur vaxið mjög sem hlutfall af landsframleiðslu á þessum tíma og tekið stærri hluta kökunnar en áður. Þeir sem halda uppi þeim málflutningi hljóta að þurfa að svara því, ef þeir telja að hækka eigi hlutfallið til vegamála, hvar eigi að draga úr á móti. Á að draga úr samneyslunni t.d. sem hefur vaxið langmest á þessu tímabili? Á að draga úr framlögum til heilbrigðismála, tryggingamála eða menntamála? Hvað eru menn yfir höfuð að tala um? (ÁRJ: Menn ættu ekki að lækka skattana á þessum tíma.) Ég er að tala um útgjöld sem hlutfall af landsframleiðslu. Það er mjög nauðsynlegt að hv. þingmenn skilji hvað felst í því.

Hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa aðallega komið með þá töfralausn að draga eigi úr útgjöldum til utanríkisþjónustunnar. Það má vel vera að hægt sé að finna einhvern sparnað í utanríkisþjónustunni eins og á öðrum sviðum. Ég tel að menn hljóti að geta fundið sparnað víða í ríkisrekstrinum en það dugar skammt í þessu samhengi. Ég verð að segja, hæstv forseti, að það er alls ekki trúverðugt að halda uppi málflutningi af þessu tagi. Ég tel hann innantóman.

Ég vil að lokum, hæstv. forseti, ítreka að sú tillaga að samgönguáætlun sem hér liggur fyrir ber það með sér að fresta eigi framkvæmdum til að viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Það var og er eitt meginmarkmið stjórnarflokkanna að leggja sig fram um að viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Það er eitt mesta hagsmunamál þjóðarinnar allrar að það takist. Við erum að vinna að því og ætlum okkur að vinna að því. Í raun er það markmið miklu mikilvægara í mínum huga en að halda þá vegáætlun sem nú er í gildi. Það er gríðarlega mikilvægt mál að okkur takist að viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Það snertir þjóðina alla og er mikið hagsmunamál fyrir alla Íslendinga. En að sjálfsögðu er þetta umdeilt. Menn hafa sínar skoðanir á málinu og það hefur komið fram í þessari umræðu líkt og í umræðum um efnahagsmál. Það eru bara skoðanir sem ber að virða. En þetta var ákvörðun sem tekin var við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2005, að fara fram með þessum hætti. Ég hef stutt það og styð það.

Hitt er annað mál að auðvitað vilja allir meira fjármagn til vegamála. Það liggur fyrir og ég er einn af þeim. En við verðum að horfa á heildarmyndina í efnahagsmálum og í ríkisfjármálum. Við verðum að meðhöndla þá hluti af ábyrgð þannig að vel fari fyrir þjóðinni.