131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:45]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Við erum búin að tala lengi um þessa samgönguáætlun og mig langar aðeins í lokin að nefna nokkur atriði sem hafa verið til umræðu og byrja á að taka undir með þeim sem hafa gagnrýnt þann niðurskurð sem hér er á ferðinni, sem er milli 5 og 6 milljarðar á samþykktri samgönguáætlun.

Sömuleiðis vil ég fagna því hvað þingmenn höfuðborgarsvæðisins hafa gert sig gildandi í umræðunni og tel það löngu tímabært. Kannski er það merki um að nú hefur jafnvægið verið lagað nokkuð þannig að þingmenn höfuðborgarsvæðisins eru álíka margir og landsbyggðarinnar, menn geta því tekið þátt í umræðunni á jafnræðisgrundvelli.

Ég verð að segja að þingmenn höfuðborgarsvæðisins hafa sýnt mikið umburðarlyndi í samgöngumálum hingað til og hafa tekið því að mjög stór hluti af vegafé hefur farið út á land, menn hafa verið tilbúnir að sætta sig við það, en það gengur ekki lengur. Nú er röðin komin að því að fara að taka á þessum málum á höfuðborgarsvæðinu. Hér búa yfir 60% landsmanna, 62,8% í desember sl., hér eru langflestar skráðar bifreiðar eða hátt í 64% skráðra bifreiða eru á höfuðborgarsvæðinu og við erum að fá rúm 20%, eða 21% af framlögum til vegamála. Það er auðvitað ekki boðlegt. Þetta verður að leiðrétta og ég tek undir með hv. þm. Gunnari Birgissyni og mun auðvitað styðja það ef hann kemur með tillögu inn í þingið um að meira af vegafé komi til höfuðborgarsvæðisins því að það er löngu tímabært.

Vegna umræðu áðan um skiptingu fjármuna milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins hjá hv. þm. Halldóri Blöndal, sem var samgönguráðherra til skamms tíma, var á hans tíma höfuðborgarsvæðið svelt. Meðal annars var nauðsynlegustu viðhaldsframkvæmdum ekki sinnt, t.d. á Reykjavíkurflugvelli, á sama tíma og endalaust fóru fjárveitingar og viðbótarfjárveitingar í Akureyrarflugvöll og í Húsavíkurflugvöll. Byggður var upp fullkominn og mjög glæsilegur flugvöllur á Húsavík og útbúinn með mjög fullkomnum lendingarbúnaði og ljósabúnaði til að hægt væri að lenda þar í myrkri, en það var ekki fyrr búið að koma honum öllum upp en hætt var að nota flugvöllinn. Ég verð nú að segja að það fannst mér mikið vitlaus fjárfesting, að setja alla þessa peninga í Húsavíkurflugvöll og hætta síðan að nota hann. Þá hefði nú verið nær að setja þá peninga á höfuðborgarsvæðið.

Varðandi Sundabrautina og alla umræðuna um hana vil ég nefna þegar verið er að kenna borgaryfirvöldum í Reykjavík um að Sundabraut skuli ekki vera inni á áætluninni, þá er það nú alveg fáránlegt. Ég vil minna á að í síðustu borgarstjórn, þ.e. fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar, voru bæði minni og meiri hluti sammála um að fara ytri leiðina, bæði Sjálfstæðisflokkurinn sem var í minni hluta, og meiri hlutinn voru sammála um ytri leiðina, það var bara þannig. En það var Sjálfstæðisflokkurinn sem skipti um skoðun og ríkisstjórnin, sem varð auðvitað til þess að þvæla málið. Það stendur nú þannig að nánast er orðið samkomulag um innri leiðina og kemur örugglega í ljós á næstu dögum eða vikum, að því skilyrði settu að leiðin komi greið niður í miðborgina. Þetta er því bara fyrirsláttur eins og menn hafa verið þvæla þetta mál hér í dag og kenna borgaryfirvöldum um. Sjálfstæðismenn vita auðvitað upp á sig sökina. Þeir voru sammála ytri leiðinni alveg fram að síðustu borgarstjórnarkosningum. Ég hef setið í samgöngunefnd árum saman í þinginu og hef fylgst með þeirri umræðu allri og þeirri þróun og það vita fleiri þingmenn sem hér hafa talað, kannski aðeins gegn betri vitund.

Varðandi Sundabrautina hefði ég gjarnan viljað fá svar frá hæstv. samgönguráðherra um hvort það sé ekki öruggt að ekki verði farið út í einhverja gjaldtöku í fyrsta áfanganum gagnvart þeim sem ferðast innan borgarinnar. Ég vona að hæstv. samgönguráðherra sé að hlusta á þetta. Ég vil fá svar við því hvort ekki sé öruggt að ekki verði farið að rukka fólk á ferð sinni innan bæjar í fyrsta áfanga Sundabrautarinnar.

Ég ætla aðeins að koma inn á annan þátt sem ég vil fagna í þessari samgönguáætlun og það eru umferðaröryggismálin, sem við þurfum að leggja mjög ríka áherslu á. Við höfum vissulega verið að taka á svörtu blettunum og ég vil minna á þingsályktunartillögu, sem var samþykkt í fyrra, frá mér og þingmönnum Samfylkingarinnar einmitt um umferðaröryggismál. Ég nefndi það í umræðunum um ferðamálin á dögunum hvað liði merkingum fyrir útlendinga á vegum hér, á erlendum tungum, því að við vitum að þó nokkuð af alvarlegum umferðarslysum á vegunum hafa verið þar sem erlendir ferðamenn hafa verið á ferðinni og vantar verulega merkingar sem þeir skilja.

Síðan langar mig til að nefna annað við hæstv. ráðherra og það er eftirlit með ölvun og fíkniefnum við akstur. Í umræðum hefur komið fram að ekki er fylgst nógu vel með því ef ökumenn eru teknir undir áhrifum fíkniefna. Ég tel að hæstv. ráðherra þurfi að taka alveg sérstaklega á þeim þætti. Auðvitað er erfitt að fylgjast með og sjá hvort ökumaður er undir áhrifum fíkniefna, en það er mjög mikilvægt því að þeir eru ekki síður hættulegir í umferðinni en drukknir ökumenn. Þess vegna held ég að taka þurfi sérstaklega á því.

Ég ætlaði síðan að koma inn á uppbyggingu vega vegna aukinna (Forseti hringir.) flutninga um vegakerfið, landflutninga, en tími minn er þrotinn, ég læt það þá bíða síðari tíma.