131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:59]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var athyglisvert að heyra það hjá hv. þingmanni að Kringlan réði því hvort við stæðum frammi fyrir því, Reykvíkingar, eins og við höfum staðið frá 1996–2002, að fjöldi árekstra á þessum gatnamótum hefur verið 583, fjöldi slasaðra 228, þar af 118 karlar og 93 konur. Ætlar meiri hluti í Reykjavík að halda svo á málum að þarna verði enn þá áfram slysatíðni á umferðarmestu gatnamótum landsins?

Svo kemur í ljós að það er ekki þeim að kenna, það er Kringlan. Alveg eins og með Sundabrautina, það er ekki þeim að kenna, það er sjálfstæðismönnum að kenna, sem ekki hafa nokkur tök haft á því máli.

Ég vil þó segja að lokum varðandi Sundabrautina að auðvitað hljótum við þingmenn Reykjavíkur að leggja alúð og ástundun við það að sú braut komist á sem allra fyrst. Komið hefur fram hjá hæstv. samgönguráðherra að það tekur á þriðja ár frá því að umhverfismatið liggur fyrir. Það virðist ekki vera hægt af hálfu borgarstjórnarmeirihluta að taka neina ákvörðun eða afstöðu til málsins fyrr en það kemur úr umhverfismati.

Ég legg áherslu á það varðandi Sundabrautina, hún er mikilvæg samgöngubót fyrir Reykvíkinga og ekki síst fyrir það ágæta skref sem meiri hluti borgarstjórnar hefur tekið í samruna Faxaflóahafnanna. Það er mjög gott skref og skal hann eiga hrós skilið fyrir það sem hann svona einu sinni á kjörtímabilinu gerir gott.