131. löggjafarþing — 108. fundur,  13. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[00:23]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það ber allt að sama brunni. Hv. þingmaður getur ekki farið rétt með nokkurn hlut. Hann lýsti því yfir að samgönguráðherra hefði tekið afstöðu til þess hvaða veglínu ætti að velja fyrir Sundabrautina. Það er nú bara þannig að samgönguráðherra hefur ekki lýst skoðun sinni hvað það varðar. Hvers vegna? Jú, vegna þess að samgönguráðherra er í þeirri stöðu að geta þurft að úrskurða um hluti sem tengjast ákvörðunum eða óskum sveitarstjórna. Ef sveitarstjórn velur leið sem Vegagerðin getur ekki sætt sig við getur komið til þess að ráðherrann þurfi að úrskurða.

Einhverra hluta vegna hefur hv. þm. Helgi Hjörvar hlaupið úr salnum þannig að það er erfitt að svara hv. þingmanni sem er hlaupinn burtu. Átta ég mig ekki á því hvers vegna það er. Vegna umræðu hv. þingmanns vil ég, með leyfi forseta, vitna hér í bréf frá borgarstjóranum í Reykjavík, bréf til formanns samgöngunefndar, Guðmundar Hallvarðssonar. Hér segir um Sundabrautina:

„Fljótlega er að vænta úrskurðar umhverfisráðherra vegna kæru á mati á umhverfisáhrifum Sundabrautar. Um leið og úrskurður ráðuneytisins liggur fyrir má gera ráð fyrir að niðurstaða fáist um legu brautarinnar.“

Þetta er borgarstjórinn í Reykjavík að tilkynna formanni samgöngunefndar, og samgönguráðherra fékk sams konar bréf, að vænta megi niðurstöðu hjá borginni innan tíðar. Svo kemur hv. þm. Helgi Hjörvar með stóryrði í garð samgönguráðherra (Forseti hringir.) og ætlast til þess að hann hafi tekið þessa ákvörðun fyrir borgaryfirvöld.