131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Athugasemd.

[13:19]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það sem gengur á, svo hæstv. forsætisráðherra sé upplýstur um það, er einfaldlega það að Ísland er langt á eftir öllum siðuðum þjóðum hvað varðar upplýsingar um fjármögnun stjórnmálaflokka, regluverk þar um og upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni okkar stjórnmálamanna.

Hæstv. forsætisráðherra var spurður að því, ekki hvort hann hygðist beita húsbóndavaldi sínu, virðulegur forseti, heldur hvort hann vildi beita sér fyrir einföldum hlut, því að við sem í þessum sal störfum upplýsum um persónulega hagsmuni okkar og tengsl við fyrirtæki með sama hætti og ráðherrar gera í Danmörku. Hann kaus að svara því engu. Hæstv. forsætisráðherra er í lófa lagið að beita sér fyrir því þó ekki væri nema innan síns flokks, og það er út af fyrir sig rétt hjá honum að það stendur upp á hvern þingmann í þessum sal og hvern flokk sem á fulltrúa í þessum sal. Ég held að það standi upp á okkur öll sem hér vinnum að hafa ekki þetta miðaldafyrirkomulag á fjárhagslegum tengslum okkar og fjármálum flokkanna heldur það taka upp hvert á okkar vettvangi, hvert í sínum flokki og sömuleiðis saman í sal hins háa Alþingis, að gera á þessu verulega bragarbót.

Mér finnst hryggilegt að forsætisráðherra Íslands sé ekki tilbúinn til að lýsa því yfir hér að hann vilji beita sér fyrir slíkri siðbót og því að sambærilegar upplýsingar og gagnsæi gildi um störf hans og mín eins og gilda til að mynda hjá nágrönnum okkar og kollegum í Danmörku. Og fyrr en við höfum tekið okkur tak í þessu efni held ég að einfaldlega verði ekki hjá því komist að þessi umræða verði tekin hér aftur og aftur hversu ósmekklegt sem hæstv. forsætisráðherra kann að þykja það og hversu mikið sem hann (Forseti hringir.) kýs að dylgja um að við sem hana hefjum höfum slæma samvisku.