131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Staða íslenska kaupskipaflotans.

[13:42]

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Virðulegi forseti. Á liðnum árum hefur orðið mikil breyting á íslenska kaupskipaflotanum. Með tilkomu gámaflutninga urðu kaupskipin stærri og færri sem eru í reglubundnum siglingum til landsins. Hagkvæmni stærðarinnar hafði þar á áhrif á enda oftar en ekki óverulegur munur á fjölda í áhöfn.

Jafnhliða þessu fækkaði kaupskipum á íslenskri skipaskrá og kaupskipaútgerðir tóku erlend skip á leigu undir svokölluðum þægindafánum með eða án áhafnar. Er nú svo komið að ekkert kaupskip í reglubundnum siglingum að og frá landinu er á íslenskri skipaskrá. Flutningunum er nú sinnt af þrettán gámaskipum, sjö skipanna eru mönnuð íslenskum farmönnum en sex skip erlendum sjómönnum. Þær staðreyndir sem hér blasa við sýna hnignandi íslenska farmannastétt. Glögga mynd málsins má sjá í ákvörðun tveggja íslenskra kaupskipaútgerða sem hafa nú skráð þrjú kaupskip í Færeyjum undir svokallaðri alþjóðlegri skipaskrá. Á sama tíma hafa Norðurlöndin unnið að eflingu kaupskipaflota síns með sérstökum skatthlunnindum til mótvægis við flótta útgerðanna með skip sín undir þægindafána.

Virðulegi forseti. Það vakti athygli í janúar sl. þegar Samskip tóku tvö ný gámaflutningaskip í þjónustu sína sem eru mönnuð íslenskum farmönnum og skráð undir færeyskum fána. Ástæðan? Jú, sjómenn á þeim skipum greiða 35% tekjuskatt af heildarlaunum, útgerðin fær endurgreidd 28% en færeyska ríkið heldur eftir 7% tekjuskattsins. Með þessu laða Færeyingar til sín kaupskip á skipaskrá og hafa tekjur af.

Samgönguráðherra í samstarfi við fjármálaráðherra skipaði starfshóp til að kanna og meta stöðu kaupskipaútgerðar á Íslandi. Í nóvember 2004 lagði starfshópurinn fram minnisblað um skráningu kaupskipa á íslenska skipaskrá.

Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Siglingar eru atvinnugrein sem sennilega eru með þeim allra opnustu fyrir alþjóðlegri samkeppni. Slíkt er auðvitað mikil ógn en gefur jafnframt mikla möguleika sé rétt á málum haldið. Vinna hópsins hefur fyrst og fremst snúist um að ræða við hagsmunaaðila og safna gögnum um stöðu mála á EES-svæðinu.

Eftirtaldir punktar lýsa meginniðurstöðu starfshópsins:

Siglingar skipta sérstaklega miklu máli fyrir Ísland því við erum háðir þeim um flesta aðdrætti. Um er að ræða siglingar í mjög viðkvæmu umhverfi sem eru fiskimiðin og strendurnar og því mikilvægt að ekkert fari úrskeiðis. Þekking farmanna hefur reynst vera mikilvæg víða í hagkerfinu.

Í skýrslunni hefur verið greint frá því hver líkleg þróun er ef ekkert verður aðhafst. Hópurinn telur víst að vissum sviðum atvinnugreinarinnar muni blæða út á tilteknum tíma. Frammi fyrir þeim valkosti standa stjórnvöld í dag án nokkurs vafa.

Í erlendum skýrslum hefur verið bent á margfeldisáhrif öflugrar kaupskipaútgerðar á starfsemi og atvinnu í landi, þ.e. að aukning í fjölda skipa á skipaskrá búi til viðbótarstörf í landi og skili þar með auknum heildarskatttekjum. Framkvæmdastjórn ESB birti nýverið uppfærðar leiðbeiningarreglur um ríkisaðstoð til sjóflutninga. Þar sem veiting ríkisaðstoðar er almennt óheimil er rétt að tiltaka rökin fyrir því að heimila vissa ríkisaðstoð til sjóflutninga. Samkvæmt leiðbeinandi reglum ESB eru þau eftirfarandi:

Til að tryggja örugga, hagkvæma og umhverfisvæna sjóflutninga.

Til að hvetja til skráningar eða endurskráningar á skipaskrá aðildarríkja ESB og EFTA.

Til að viðhalda og bæta verkkunnáttu og þekkingu á sviði sjóflutninga og efla atvinnumöguleika evrópskra sjómanna.

Í Evrópusambandinu var talið algjörlega óviðunandi að allur eða stór meiri hluti kaupskipaflotans yrði skráður í löndum utan sambandsins. Sú staða þýddi einfaldlega að Evrópa yrði algjörlega háð þjóðum utan álfunnar með alla flutninga á eigin framleiðslu til annarra landa og allan innflutning til álfunnar. Auk þess var bent á að ESB mundi tapa allri lögsögu um gerð og öryggisbúnað skipanna, öll menntun og þekking á þessu sviði mundi hverfa sem hefði mikið atvinnuleysi í för með sér, bæði á sjó og í landi. Við þetta bættist sú ógn að ef til ófriðar kæmi gæti álfan orðið varnarlaus um aðdrætti í einu vetfangi.“

Í tillögum nefndarinnar eru settir fram tveir kostir í þessari alvarlegu stöðu, þ.e. að skattalegt umhverfi íslenskrar kaupskipaútgerðar taki mið af öðrum Norðurlöndum eða algjört aðgerðaleysi og óbreytt ástand. Slíkt ástand er óviðunandi, virðulegi fjármálaráðherra.