131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Staða íslenska kaupskipaflotans.

[13:57]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er þakkarvert af hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni að taka þetta mál hér upp og ekki efast ég um góðan hug hans. En að sama skapi hljóta honum þá að þykja viðbrögð flokksbróður síns, hæstv. fjármálaráðherra, heldur daufleg. Það má segja að þetta mál sé nú hreint innanflokksmál Sjálfstæðisflokksins um þessar mundir því að þeir ráðherrar tveir sem þetta heyrir sérstaklega undir, fjármálaráðherra og samgönguráðherra, eru úr þeim flokki sem og hv. málshefjandi. Því væru hæg heimatökin þar á bænum að grípa til aðgerða og ráðstafana ef pólitískur vilji væri til staðar.

Það er búið að blasa við lengi að þróunin hvað varðar skráningu kaupskipa hér á landi er aðeins á einn veg. Þegar um og upp úr 1990 hreyfði ég þessu máli hér á þingi og lagði til að skoðað yrði að taka upp alþjóðlega skipaskrá hér sambærilega þeirri sem bæði Norðmenn og Danir höfðu þá þegar tekið upp. Ætli þá hafi ekki verið milli 30 og 40 kaupskip í íslenska flotanum. Við getum velt því fyrir okkur hvaða árangri hefði mátt ná með því að taka þá upp hliðstæð vinnubrögð og siglingaþjóðirnar í löndunum í kringum okkur viðhöfðu.

Nú er staðan sú að hér er ekkert kaupskip í millilandasiglingum skráð og nýjustu skip Íslendinga, merkilegt nokk, skráð í Færeyjum, ein þrjú talsins, á sama tíma og þessi atvinnugrein viðhelst a.m.k. eða jafnvel blómstrar í löndunum í kringum okkur, Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Færeyjum og Írlandi. Ég held að það eigi að taka mjög alvarlega til skoðunar hvort við höfum nokkru að tapa að láta á það reyna um stund með alþjóðlegri skipaskrá og skattalegu hagræði, stuðningi við menntun og öðru því um líku, sem yfirleitt er í þessum pakka hjá nágrannaþjóðunum, hvort snúa megi þessari þróun eitthvað við, t.d. þannig að nýsmíðar verði þá skráðar (Forseti hringir.) hér á landi á nýjan leik eða endurnýjun í flotanum eftir því sem slíkt kemur til.