131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Endurgreiðslur gjalda íslensk skipaiðnaðar.

710. mál
[14:11]

Fyrirspyrjandi (Guðjón Guðmundsson) (S):

Frú forseti. Fyrir um það bil ári síðan skipaði iðnaðarráðherra nefnd undir forustu Baldurs Péturssonar til að endurskoða reglur um endurgreiðslu aðflutningsgjalda vegna nýsmíði og viðgerða skipa. Nefndin skilaði niðurstöðu og tillögum sínum í febrúar sl. og er skýrsla nefndarinnar mjög athyglisverð og vel unnin. Þar kemur m.a. fram að 4,5% endurgreiðslur aðflutningsgjalda skipaiðnaðarins hafa ekki dugað til að jafna mismunun gagnvart erlendum keppinautum og ekki hafi því verið forsendur til að skerða þær endurgreiðslur úr 6,5% í 4,5% eins og gert hefur verið síðustu árin með því að draga frá andvirði skipsskrokka sem smíðaðir voru erlendis við útreikning endurgreiðslnanna.

Þá er bent á að ESB hefur ákveðið að skilgreina skipaiðnað á EES-svæðinu sem hátækniiðnað. Með því fellur hann undir reglu sem heimilar hverju landi að greiða niður 20% þróunarkostnað við hvert skip. Evrópskar samkeppnisþjóðir íslensks skipaiðnaðar hafa nú þegar nýtt sér þessar heimildir með þeim afleiðingum að þær bjóða nú mun lægra verð í smíði fiskiskipa en þær gerðu fyrir ári en skip sem er hannað og smíðað á EES-svæðinu og kostar 400 millj. kr. gæti fengið styrk yfir 60 millj. kr. úr viðkomandi ríkissjóði. Það er augljóst að íslenskar skipasmíðastöðvar ráða ekki við slíka samkeppni, en forsenda heilbrigðrar þróunar atvinnulífs er auðvitað að atvinnugreinarnar keppi á grunni jafnræðis, ekki síst í erlendri samkeppni.

Nefndin setur fram nokkrar tillögur til úrbóta. Í fyrsta lagi að endurgreiðslur aðflutningsgjalda verði þegar hækkaðar í 6% í samræmi við heimildir í reglugerð frá 1985. Í öðru lagi að endurgreiðslur verði leiðréttar frá og með árinu 2002. Í þriðja lagi að treysta lagagrunn frekar á þessu sviði þannig að núverandi tollalögum frá 1987 verði breytt með þeim hætti að í stað niðurfellingar í tolli við innflutning hverju sinni verði heimilt að endurgreiða tiltekið hlutfall söluverðs. Í fjórða lagi að stjórnvöld taki afstöðu til þess á grunni frekari úttektar hvort tekin verði upp endurgreiðsla þróunarkostnaðar líkt og ESB hefur ákveðið en með því yrði lagður grunnur að samkeppnishæfum skipaiðnaði og tengdum greinum. Markmið þessara aðgerða er að það verði fullur jöfnuður við þau lönd innan EES-svæðisins sem stunda smíðar á 20–40 metra fiskiskipum en það eru þær skipastærðir sem íslenskur skipaiðnaður á raunhæfa möguleika á að geta boðið á innlendum og alþjóðlegum markaði ef hann situr við sama borð og keppinautar nágrannalandanna.

Á árunum 1986–2004 fækkaði ársverkum í skipaiðnaði úr 1.000 í 360. Það er líka athyglisvert að einu sinni á þessu tímabili fjölgaði störfum í greininni um 30%, á árunum 1994–1995 en þá beittu stjórnvöld jöfnunaraðgerðum til að jafna mismuninn í starfsskilyrðum við erlenda samkeppnisaðila sem beittu jöfnunarstyrkjum. Ég hef því lagt svohljóðandi fyrirspurn fyrir hæstv. fjármálaráðherra:

Hvernig og hvenær hyggst ráðherra bregðast við niðurstöðum nefndar sem í febrúar skilaði tillögum sem m.a. fólust í því að hækka endurgreiðslur aðflutningsgjalda til skipaiðnaðarins til að jafna aðstöðu innlendra skipasmíðastöðva í samanburði við erlendar stöðvar?