131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Endurgreiðslur gjalda íslensk skipaiðnaðar.

710. mál
[14:14]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi lýsa mig samþykkan þeim meginsjónarmiðum sem fram komu í máli hv. fyrirspyrjanda hvað það varðar að það er nauðsynlegt að tryggja að íslenskur skipasmíðaiðnaður, alveg eins og aðrar íslenskar atvinnugreinar, búi við sambærileg samkeppnisskilyrði og almennt tíðkast í öðrum löndum og ekki lakari.

Varðandi spurningu hv. þingmanns vil ég segja eftirfarandi: Um endurgreiðslur tolla vegna skipasmíða og skipaviðgerða gilda nú reglur nr. 172/1985 sem settar eru með stoð í tollalögum sem nú eru nr. 55/1987. Samkvæmt þessum reglum endurgreiddi ríkissjóður skipasmíðastöðvum lengi 6,5% af samningsverði nýsmíða, meiri háttar viðgerða og breytinga á eldri skipum. Árið 1998 lækkaði þessi hlutfallstala í 4,5% ef skrokkur viðkomandi skips er smíðaður erlendis eins og í flestum tilfellum er raunin.

Í þeirri skýrslu sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni kemst nefndin sem hana samdi að þeirri niðurstöðu að rétt sé að hækka endurgreiðsluhlutfallið úr 4,5% í 6% og nefndin leggur til að þau fyrirtæki sem notið hafi endurgreiðslu fái afturvirka hækkun aftur til ársins 2002 auk þess sem nauðsynlegt sé að styrkja lagagrundvöllinn fyrir umræddri reglugerð. Nefndin notaðist í vinnu sinni við að meta álögð aðflutningsgjöld við þá reikningsaðferð að leggja mat á öll aðföng sem notuð voru við smíði eins skips, verð aðfanganna og álagða tolla og vörugjöld á aðföngin. Sú reikningsaðferð er gróf viðmiðun þar sem miðað er við smíði eins skips og rekstrarár eins fyrirtækis í skipasmíðaiðnaði.

Það er frá því að segja, virðulegi forseti, að gjaldtaka ríkissjóðs í formi tolla og annarra aðflutningsgjalda hefur lækkað verulega frá 1985 þegar áðurnefndar reglur um endurgreiðslu tolla til skipasmíða voru settar, m.a. vegna alþjóðlegra skuldbindinga Íslands. Sú lækkun hefur að sjálfsögð komið þessari grein eins og öðrum til góða. Í því sambandi má nefna að árið 1986 voru tollar 8% af skatttekjum ríkissjóðs en tíu árum síðar hafði hlutfallið lækkað í 3% og árið 2003 var þetta hlutfall komið niður í 1%. Það er mikilvægt í þessu máli að skilgreina rétt endurgreiðsluhlutfall nákvæmlega vegna þess að greiðslur frá ríkissjóði umfram greidd aðflutningsgjöld, tolla eða vörugjöld, teljast vera ólögmætur ríkisstyrkur í skilningi EES-samningsins.

Til þess að bregðast við niðurstöðum nefndarinnar hefur sérfræðingum fjármálaráðuneytisins, iðnaðarráðuneytisins og tollstjórans í Reykjavík verið falið að leggja nákvæmt mat á hvað umrætt endurgreiðsluhlutfall þarf að vera hátt til þess að það feli í sér fulla endurgreiðslu aðflutningsgjalda, þ.e. tolla og vörugjalda, án þess þó að það jafngildi ólögmætum ríkisstyrk í skilningi EES-reglnanna. Þegar þeirri athugun lýkur er stefnt að því að styrkja lagagrundvöll reglugerðarinnar um endurgreiðslu tolla vegna skipasmíða og skipaviðgerða og gera nauðsynlegar breytingar á endurgreiðsluhlutfallinu eftir því sem útreikningar leiða í ljós að upp á kunni að vanta.

Þar með liggur það fyrir af minni hálfu, virðulegi forseti, að verið er að vinna úr niðurstöðum þessarar nefndar. Það er verið að sannreyna þær tillögur og þær upplýsingar sem þar koma fram vegna þess að það er eðlilegt að endurgreiða hér tolla og vörugjöld með þeim hætti sem tíðkast hefur, í þeim mæli sem slíkum gjöldum er fyrir að fara í dag og þá til fulls. Hins vegar verða menn að gæta sín á því að ef lengra er stigið en í raun og veru er innheimt í gjöld af þessari starfsemi erum við komin út á þann vettvang að um gæti verið að ræða ríkisstyrki sem ekki fái staðist okkar alþjóðlegu skuldbindingar á vettvangi EES-samningsins. Það þarf bara að ganga úr skugga um markalínurnar í því efni og gæta sín að fara ekki yfir það strik.